Afstaða ríkisstjórnarinnar til Kyoto-bókunarinnar

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 14:01:33 (6697)

2001-04-24 14:01:33# 126. lþ. 110.95 fundur 482#B afstaða ríkisstjórnarinnar til Kyoto-bókunarinnar# (umræður utan dagskrár), KPál
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[14:01]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Það liggur fyrir að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar styður Kyoto-bókunina, enda verði sérstaða okkar viðurkennd. Á þessu hefur ekki orðið nein breyting.

Sérstaða okkar byggist á þeirri staðreynd að hagkerfið er að langstærstum hluta rekið af orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum, þ.e. frá fallvötnum, heitu vatni og jarðgufu. Orka til húshitunar og rafmagnsframleiðsla er öll fengin með virkjun þessarar einstæðu auðlindar okkar Íslendinga. Miklu fjármagni hefur einnig verið varið til að binda koltvísýring úr andrúmsloftinu með skógrækt og landgræðslu. Virkjun metangass úr sorphaugum við þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu er einnig staðreynd í dag. Mér finnst því augljóst að af hálfu íslenskra stjórnvalda hefur hugur fylgt máli og orðum fylgja athafnir.

Það gefur hins vegar augaleið að sjálfstæð þjóð getur aldrei gefið frá sér rétt til þess að viðhalda eðlilegum hagvexti. Hagkerfi okkar er afskaplega lítið á heimsmælikvarða og losun okkar út í andrúmsloftið innan við 0,05% af heildarlosun hagkerfa heimsins. Við höfum aðeins virkjað 15% af þeirri orku sem virkjanleg er í landinu. Til marks um smæð hagkerfis okkar þýðir bygging eins álvers eins og í Straumsvík um 11--15% árlega aukningu á losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. En við eigum enga losunarkvóta eftir miðað við Kyoto-bókunina þannig að ef við ætlum að nýta okkur endurnýjanlega orku landsins þurfum við að fá sérstöðu okkar viðurkennda áður en við skrifum undir Kyoto-bókunina. Þessa sérstöðu okkar hafa stórþjóðir eins og Frakkar viðurkennt eins og kom fram í ferð hæstv. forsrh. til Evrópu nýlega.

Breytingar á stefnu stjórnar Bandaríkjanna í þessum málum hafa engin áhrif á afstöðu okkar. Það verður hins vegar að skoða stöðu Bush-stjórnarinnar í ljósi ályktunar sem öldungadeild bandaríska þingsins gerði þegar Kyoto-samkomulagið var kynnt. Öldungadeildin samþykkti ályktun með 95 atkvæðum gegn engu um að fullgilda ekki bókunina frá Kyoto. Afstaða Bush getur því vart komið mjög á óvart.