Afstaða ríkisstjórnarinnar til Kyoto-bókunarinnar

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 14:08:20 (6700)

2001-04-24 14:08:20# 126. lþ. 110.95 fundur 482#B afstaða ríkisstjórnarinnar til Kyoto-bókunarinnar# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[14:08]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Í gær kom út til sölu og dreifingar eitt af virtustu vikuritum veraldar, Time Magazine. Meginefni þess blaðs er umfjöllun um loftslagsbreytingar í veröldinni. Til þess er varið um tíu blaðsíðum og eru birtar á mjög gagnrýninn hátt niðurstöður sérfræðinga vikuritsins um ástand þessara mála í veröldinni.

Það vekur athygli, herra forseti, að af þessum tíu síðum er rúmlega ein síða um Ísland og þess vegna hlýtur það að vera nokkuð fróðlegt að sjá hvað sérfræðingar þessa virta rits segja um Ísland.

Í upphafi umfjöllunar sinnar um Ísland ávarpa sérfræðingarnir einfaldlega lesendur ritsins og segja að vilji lesendur sjá í verki ábyrga stefnu ríkisstjórnar í umhverfismálum hvað varðar notkun vistvænna orkugjafa, þá skuli menn snúa sér til Íslands. Síðan er fjallað um það í þessari grein hvernig Íslendingar hafa borið gæfu til þess að nýta með skynsamlegum hætti vistvæna orkugjafa, raforku með jarðvarma og vatnsorku. Að lokum fjalla þeir síðan um stefnu ríkisstjórnar til framtíðar, ekki síst það áform ríkisstjórnar Íslands að stefna að vetnissamfélagi hér á næstu 20--30 árum og enda með því að segja í lok þessarar umfjöllunar:

Ísland er og mun verða hvatning og fyrirmynd annarra ríkja hvað varðar notkun vistvænna orkugjafa.

Herra forseti. Þetta er niðurstaða sérfræðinga á alþjóðlegri úttekt frá virtu riti og þess vegna hljóta raddir eins og hér heyrast frá sumum hv. stjórnarandstæðingum að verða heldur hjáróma. Staðreyndin er einfaldlega sú að 67% af orku okkar er byggð á vistvænum orkugjöfum. Þar að auki hefur pólitískt markmið um vetnissamfélag verið sett sem mun minnka útblástur um ein 60% hér á Íslandi. Við erum með öðrum orðum fremstir þjóða á þessu sviði og þess vegna verða sumar raddir hér heldur hjáróma.