Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 15:30:13 (6712)

2001-04-24 15:30:13# 126. lþ. 110.18 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, Frsm. meiri hluta ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[15:30]

Frsm. meiri hluta allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Skilaboðin eru að mínu mati mjög skýr og komu mjög skilmerkilega fram í ræðu hæstv. dómsmrh. við 1. umr. um málið. Þetta eru alvarleg brot og við lítum þau mjög alvarlegum augum. Það er aftur á móti ekki löggjafans að ákveða hversu lengi menn sitja inni, hvort það eru sex, átta, níu eða tíu ár. Á hinn bóginn er það löggjafans að sjá til þess að ramminn fyrir dómstóla sé nægur til þess að dæma menn í viðhlítandi refsingu að mati dómstólanna. Ég vil m.a. vitna í umsögn frá ríkissaksóknara þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

,,Af hálfu ríkissaksóknara er tekið undir þá ályktun í athugasemdum við frv., sem dregin er af dómaframkvæmd, að með refsimati dómstóla hafi refsimörk 173. gr. a almennra hegningarlaga verið nýtt nánast að fullu`` --- nánast að fullu --- ,,í alvarlegustu fíkniefnabrotum.``

Því miður er það rétt sem kom fram í máli hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar að enn er verið að taka menn með stórar sendingar af e-töflum. Við þurfum að gera ráð fyrir því að þá verði hægt að bregðast við því með viðhlítandi hætti.

Þó refsiramminn verði aukinn eiga dómstólar eftir sem áður að taka tillit til einstakra brota, tillit til brotaþola, umfangs brotsins o.s.frv. En við hér, löggjafinn, þurfum að sjá til þess að refsiramminn sé það rúmur, sé nægilegur, að dómstólar geti brugðist við því þegar efni standa til.