Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 15:32:19 (6713)

2001-04-24 15:32:19# 126. lþ. 110.18 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[15:32]

Frsm. minni hluta allshn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Rétt er að halda því til haga að enginn dómur hefur fallið sem hefur farið upp í það þak sem hér um ræðir. Sá dómur sem lengst hefur gengið eru níu ár. Það er alveg ljóst að sá saksóknari sem talaði í fjölmiðlum í gær er þeirrar skoðunar að dómar séu mjög þungir.

Það er kannski ekki aðalatriðið. Það sem er kannski aðalatriði og kom einmitt fram í ræðu hv. þm. Þorgerðar K. Gunnarsdóttur er að lausnin við alvarlegum brotum eru hertar refsingar. Þetta er greinilega sú stefna sem verið er að boða, þ.e. til þess að bregðast við alvarlegum brotum sé lausnin sú að herða refsingu.

Því hlýtur maður að spyrja í þessu samhengi að við hljótum að fá svipuð eða sambærileg frv. um alla málaflokka þar sem um alvarleg brot er að ræða. Fíkniefnabrotin eru vissulega alvarleg. Líkamsmeiðingabrot eru mjög alvarleg. Manndrápsbrot eru mjög alvarleg. Fjársvikabrot eru mjög alvarleg. Í samræmi við þetta, þar sem lausnin er hertar refsingar við alvarlegum brotum, a.m.k. að mati þeirra sem nú ráða ferðinni í dómsmrn., þá hljótum við að sjá svipuð eða sambærileg frv. um önnur alvarleg brot. Annars fer þetta að hljóma dálítið hjáróma.