Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 15:34:08 (6714)

2001-04-24 15:34:08# 126. lþ. 110.18 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, Frsm. meiri hluta ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[15:34]

Frsm. meiri hluta allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einu sinni svo að sú lagahefð sem ríkt hefur hér á Íslandi gagnvart endurskoðun á hegningarlagaákvæðum er sú að þar eru einstakir brotaflokkar teknir fyrir og þeir skoðaðir og hugsanlega endurmetnir. Það er verið að gera hér. Ég sé fyrir mér að annar brotaflokkur verði líka tekinn frekar fyrir og það núna í nánustu framtíð og það eru kynferðisafbrot. Við erum að taka þetta markvisst fyrir. Þetta er gert með ákveðinni hugsun. Það eru ekki einungis varnaðaráhrifin sem sumir segja að séu umdeild með hertum refsingum, það kann vel að vera. Ég met varnaðaráhrif mikils, en ég met líka þá kröfu sem borgarar þessa lands hafa til þeirra sem fremja ítrekað alvarleg fíkniefnabrot. Ég er að tala um stórfelld fíkniefnabrot, að þeim sé í ákveðinn tíma einfaldlega haldið frá þjóðfélaginu af því að brotin eru það alvarleg.

Annars finnst mér merkilegt að það hefur í rauninni komið skýrt fram í máli hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar að Samfylkingin er á móti því að herða refsingar í jafnalvarlegum brotum sem fíkniefnabrotum. Hún er einfaldlega á móti því að refsiramminn verði aukinn, að dómstólar sem eiga að meta hvert mál, hvert brotamál, hafi það svigrúm sem þeir þurfa að hafa. Við erum komin með níu ár í einum dómi. Níu ár er hæsti dómur. Ég tel að við eigum að láta dómstólana hafa þetta svigrúm því það er þeirra að meta þetta eftir sem áður. (Gripið fram í.)

Engu að síður er ljóst að Samfylkingin er á móti því að refsiramminn verði (Gripið fram í.) hækkaður úr tíu árum í tólf ár.