Fjarskipti

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 16:20:13 (6722)

2001-04-24 16:20:13# 126. lþ. 110.17 fundur 193. mál: #A fjarskipti# (hljóðritun símtala) frv. 29/2001, Frsm. meiri hluta ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[16:20]

Frsm. meiri hluta samgn. (Árni Johnsen):

Virðulegi forseti. Ekkert er óeðlilegt þó ýmsar vangaveltur komi upp í þeirri lagasmíð sem er til umræðu vegna þess að hér er fjallað um lagaákvæði sem eru auðvitað á mörkum þess að vera lagaskyld eða heyra undir almenna kurteisi og réttlæti.

Ég vil taka undir það sem hefur komið fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni í þeim efnum. Það á að vera almenn kurteisi blaðamanna eða annarra sem eiga samtöl við fólk um fjarskiptakerfi að tilkynna um upptöku. Það er svo einfalt að mínu mati.

Hitt er ljóst að þessi almenna regla, kurteisisregla, er ekki virt í öllum tilvikum og í mörgum tilvikum er hún brotin. Það er kannski þess vegna að ástæða kemur til þess að setja inn lagaákvæði sem tryggir stöðu og rétt einstaklingsins, sem veit ekki hvað er verið að gera í almennum persónulegum samskiptum við hann, með því að taka samtöl upp á segulbönd eða önnur tæki.

Það er alveg ljóst að almenna reglan er að þessi kurteisisregla er skylda samkvæmt lögunum. Það kemur þó fram í því sem hér er fjallað um að aðili þurfi ekki að tilkynna sérstaklega um upptöku samtals, ef ótvírætt má ætla --- þegar ótvírætt má ætla --- að viðmælanda sé kunnugt um hljóðritunina og einnig er lýtur að allri starfsemi stofnana, hvort sem um er að ræða Flugmálastjórn, lögreglu, slökkvilið, banka eða annað. Það er líka almenn viðskiptaregla að taka slíkt upp til þess að tryggja rétt viðskiptavinarins ekki síður en þess sem býður þjónustuna.

Síðan kemur kannski meginþátturinn sem sker nú úr um þær vangaveltur sem hér hafa verið uppi, það er að úrvinnsla hljóðritunar skal samkvæmt grein þessari vera í samræmi við lagaákvæðið um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þar kemur annar lagabálkurinn sem við erum að fjalla um í fjarskiptalögum.

Þetta eru tvö atriði, annars vegar hvort ástæða er til að setja lög sem stríða gegn almennri skynsemi, eða með öðrum orðum, sem er á mörkum þess að vera krafa um almenna kurteisi í samskiptum manna á milli.

Hitt atriðið er hvort þetta stríði gegn réttlæti. Þar kemur álitamálið. Hv. þm. nefndi sem dæmi að útvarpsmaður gæti hringt í viðmælanda og útvarpað samtali beint. Þá að því er ég skildi án þess að tjá viðmælandanum að hann væri í beinni útsendingu. Auðvitað er það klárt mál að það er algjört siðleysi af útvarpsmanni að hringja í viðmælanda og stilla honum í beina útsendingu án þess að láta hann vita sérstaklega af því. Það segir sig sjálft. Þetta hafa útvarpsmenn gert í tíma og ótíma með ótrúlegri ósvífni. Með þessari lagasetningu er komið í veg fyrir slíkt.

Auðvitað er komið í veg fyrir það vegna þess að um leið og prófmál kæmi á það hvort útvarpsmaðurinn mætti hleypa manni beint í útvarpssendingu án þess að tilkynna það. Það bara segir sig sjálft. Hægt er að velta vöngum yfir því endalaust en auðvitað gengi það ekkert upp.

Þetta er auðvitað eitt af þeim málum sem er endalaust hægt að velta vöngum yfir tæknilega. Slíkir þættir eru ekki settir í lagasmíð í öllum tilvikum. Þarna vega þyngst lögin um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, það eru þau sem stoppa þetta.

En auðvitað gengur það ekki og alveg klárt mál í túlkun samgn., af því að hér er nefnt dæmi, að það getur ekki verið réttlætanlegt að útvarpsmaður setji í beina útsendingu viðtal án þess að tjá viðmælanda sínum um það, þó hann sé að taka upp málflutning til þess að vinna úr gögnunum.

Í öllum almennum reglum á líka fréttamaðurinn og útvarpsmaðurinn að tala við viðmælanda sinn þegar hann er búinn að vinna úr gögnunum. Það er líka almenn kurteisi. Það er ekki í lögum. Ég tel að þessi lagasmíð sé ekkert í andstöðu við Blaðamannafélag Íslands.

Gengið er mjög langt í þessu og til að mynda er tryggt að einn fjölmiðill getur með klárri auglýsingu klárað þetta mál og kynnt almennu regluna. Sem betur fer erum við nú í þjóðfélagi þar sem menn eru allir upplýstir og skilaboð komast fljótt og vel á milli manna.

Ég sé enga ástæðu til þess að Blaðamannafélag Íslands ætti að fara að gefa út tilkynningu um það fyrir hönd allra fjölmiðla að eðlilegt væri að samtöl væru tekin upp hjá hvaða fjölmiðli sem væri. Það hlýtur hver og einn fjölmiðill að geta ákveðið vinnureglur um það. Það er ekki neitt sem býður upp á það, hvorki í starfsemi Blaðamannafélags Íslands né almennum reglum sem við vinnum eftir að slíkt verði gert. Þess vegna er eðlilegt að tala um hvern fjölmiðil fyrir sig enda hafa fjölmiðlarnir ekki verið vanir að svara allir fyrir einn í þeim efnum.

Ótrúlega löng umræða í þetta litla mál og margslungin meðferð. Í fyrri lagasmíð kom einfaldlega í ljós að tilvitnun í reglur og tilskipanir Evrópubandalagsins voru oftúlkaðar. Það hefur verið slípað og reynt að laga það að þeim aðstæðum sem við búum við og ég hygg að allir megi vel við una.