Fjarskipti

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 16:45:50 (6726)

2001-04-24 16:45:50# 126. lþ. 110.17 fundur 193. mál: #A fjarskipti# (hljóðritun símtala) frv. 29/2001, Frsm. meiri hluta ÁJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[16:45]

Frsm. meiri hluta samgn. (Árni Johnsen) (andsvar):

Herra forseti. Hún varð fræg sagan af gömlum vini mínum heitnum, Jóhannesi Kjarval, þegar hann kom eitt sinn inn í Bókabúð Ísafoldar, gekk að afgreiðslustúlkunni og spurði: ,,Kostar kurteisi peninga?`` ,,Nei að sjálfsögðu ekki,`` svaraði stúlkan. Þá tók Kjarval bók úr hillu sem hét Kurteisi og gekk með hana út því að hann var gamansamur.

En allt orkar þetta tvímælis. Þetta er skemmtisaga sem segir ákveðna hluti um þetta hugtak okkar ,,kurteisi``. Það hefur aldrei farið neitt á milli mála í mínum málflutningi, að í rauninni er það sem við erum að fjalla hér um eitt af þeim atriðum sem ætti ekki að þurfa að setja lög um vegna þess að það vélar um almenna kurteisi, almenna mannasiði.

Hv. Jón Bjarnason spyr hvað hafi gerst. Hv. þm. rakti sjálfur að í túlkun á tilskipun Evrópubandalagsins var gengið of langt. Það kom fram í fyrri ræðu minni í dag að fljótlega eftir að lögin voru samþykkt hafi komið fram gagnrýni á þetta ákvæði laganna. Gagnrýnin fólst einkum í því að ákvæðið væri of strangt og án undantekninga, sem gerði það að verkum að það raskaði bæði hagsmunum stjórnvalda og einkaaðila sem nýttu sér hljóðritanir í starfsemi sinni.

Þess vegna er málið tekið upp aftur og þetta er niðurstaðan. Hún er ekki alhliða á einn veg heldur er hún eins konar málamiðlun. Það er skylda hvers sem ætlar að taka upp samtal að tilkynna það, hvort sem hann hefur hafið samtalið eða tekur þátt í því á öðrum nótum.