Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 16:54:41 (6729)

2001-04-24 16:54:41# 126. lþ. 110.18 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, KolH
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[16:54]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Löggjafanum er sannarlega vandi á höndum þegar ákvarða skal refsingar vegna hvers kyns afbrota sem framin eru í samfélaginu. Málið er ekki einfalt. Það er jú hlutverk löggjafans að ákvarða refsingar við afbrotum.

Það vill þannig til að ég var viðstödd hluta umfjöllunar þessa máls sem hér um ræðir í hv. allshn. Ég hef a.m.k. að hluta kynnt mér þau gögn sem liggja að baki málinu. Ég verð að segja eins og er, herra forseti, að mér finnst nál. meiri hluta allshn. fremur lítilfjörlegt miðað við þá umræðu sem skapast hefur um málið og umfang málsins strax í upphafi.

Við vitum öll að refsingar eru aðeins ein af mörgum leiðum til að reyna að stemma stigu við afbrotum. Að sjálfsögðu erum við hér saman komin til að gera allt sem í okkar valdi stendur til að stemma stigu við afbrotum. Við njótum við það starf okkar fulltingis stofnana í samfélaginu. Mér finnst satt að segja merkilegt að umsagnir frá dómstólaráði og Lögmannafélaginu skuli ekki vega þyngra í umfjöllun allshn. en raun ber vitni í þessu máli. Ég tek undir þau orð hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar og Guðmundar Árna Stefánssonar sem hér hafa fallið, að umfjöllun nefndarinnar hefði þurft að vera mun dýpri og vandaðri, taka lengri tíma og ná betur utan um málið, sem fjallar í raun og veru um hugmyndafræðina á bak við refsingar.

Hugmyndafræðin á bak við refsingar er fag í sjálfu sér. Úti í heimi, í nágrannalöndum okkar hafa mörg þjóðríki komið á fót stofnunum sem gera ekki annað en að fjalla um refsingar. Þetta hefur komið upp hvað eftir annað hér hjá okkur, að við flækjum okkur í deilur um refsingar í einstökum málum en náum aldrei botni. Við erum stöðugt að reyna að vinna í yfirborðinu, leita skyndilausna og setja plástra á sár.

Nú er talsverð umræða um það í samfélaginu að refsingar í einstökum málum þurfi að taka til rækilegrar skoðunar. Það mun hafa verið í gær sem Ríkisútvarpið flutti frétt sem byggði á ummælum Kolbrúnar Sævarsdóttur, sækjanda hjá embætti ríkissaksóknara. Hún gerði að umtalsefni viðtal sem mun hafa birst í tímaritinu Ský þar sem Kolbrún fjallaði um refsingar í fíkniefnamálum og þá dóma sem hafa gengið í slíkum málum hér á landi, sem raunar er að finna ágætt yfirlit um í greinargerð frv. sem hér er til umfjöllunar.

Kolbrún Sævarsdóttir telur að í þeim dómum sem gengið hafi í fíkniefnamálum hafi fyrst og fremst verið miðað við magn efnanna en hún mælir líka með því að málin séu skoðuð í stærra samhengi, t.d. þurfi að skoða og vega og meta refsingu út frá aldri afbrotamanns, út frá sakaferli eða aðild hans að máli. Það þarf að skoða hvort fíkniefnin hafi komist í dreifingu eða hvort þau hafi verið tekin við innflutning inn í landið. Ótal fleiri atriði má skoða í svona málum.

Það að halda því fram að þingmenn, sem hafa áhyggjur af því að hér sé að fara í gegnum þingið mál sem sé ekki nægilega vel ígrundað, séu á móti refsingum í fíkniefnamálum, er náttúrlega algjör fásinna. Það er sannarlega réttmæt krafa þegar þingmenn óska eftir því að nefndir vinni málin út í hörgul. Umsagnir sem hv. allshn. bárust í þessu máli voru þess eðlis að það gafst sannarlega tilefni til að vinna málið mun betur en gert hefur verið.

Þess vegna tek ég undir þá gagnrýni sem hefur komið hérna fram. Ég tel að heildarendurskoðun refsiramma laganna þurfi að fara fram. Allshn. hefur tækifæri til að koma að slíku máli og sjá til þess að slíkri endurskoðun sé fundinn farvegur. Ég tek undir það að nefndin hafi fullt tilefni til að vinna þetta mál frekar og mundi því styðja fram komna tillögu, að málinu verði vísað aftur til nefndar og unnið betur.