Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 17:00:23 (6730)

2001-04-24 17:00:23# 126. lþ. 110.18 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, Frsm. minni hluta LB
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[17:00]

Frsm. minni hluta allshn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Vegna þess að umræðan í dag hefur snúist að talsverðu leyti um að hæstv. dómsmrh. hefur ekki getað verið viðstödd, þá er nú miður að formaður allshn., hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir, er heldur ekki viðstödd. Það er því kannski ástæðulaust að við í minni hlutanum á Alþingi séum að tala hvert yfir öðru þar sem við erum að reyna að sannfæra fólk um viðhorf okkar og skoðanir ef enginn af þeim sem heldur á málinu treystir sér til að vera viðstaddur. Ég held því að það sé rétt, virðulegi forseti, að gera hlé á máli mínu þangað til --- mér liggur við að segja --- að einhver úr meiri hluta þingsins komi í salinn.

(Forseti (ÁSJ): Forseti getur upplýst að formaður allshn., hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir er í húsinu. Hún mun vera í hliðarsal þannig að hún kemur örugglega von bráðar.)

Virðulegi forseti. En það er kannski ekki eins og hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir sé ein í hv. allshn. því að það eru fleiri úr meiri hluta þingsins. Þar má nefna t.d. varaformanninn, hv. þm. Jónínu Bjartmarz o.fl. þannig að við getum haldið þessari umræðu áfram. En hv. þm. Þorgerður K. Gunnardóttir er nú komin í salinn og því held ég að ástæða sé til þess að halda umræðunni áfram.

Það sem hefur verið dregið mjög skýrt fram í þessari umræðu er að það mál sem hér um ræðir er algerlega órökstutt, óunnið, órannsakað og ekkert er á bak við það sem gerir það að verkum eða réttlætir að farið sé í þessar breytingar. Það er ekkert í þessu máli og ekkert hefur komið fram hjá meiri hlutanum eða þeim sem standa að meirihlutaálitinu hvers vegna er ráðist í þessar breytingar. Það eina sem hefur komið fram í umræðunni er að það beri að bregðast hart við þegar um alvarleg brot er að ræða. Kannski má segja sem svo að með þessu móti hafi a.m.k. verið dregin fram sú stefna sem meiri hlutinn rekur á hinu háa Alþingi að það skuli herða refsingar. Það er sú afstaða sem hefur verið dregin fram og það er út af fyrir sig gott að það liggi fyrir hver afstaðan er. En hér er um það stórt mál að ræða að mér finnst ekki mikil krafa að meiri hlutinn á hinu háa Alþingi hefði gert einhverja tilraun til að rökstyðja mál sitt, einhverja örlitla tilraun hvað það væri sem menn væru að reyna að reyna að ná fram, hvers vegna þessi leið væri farin. Það hefur ekkert komið fram.

Nál. er þess eðlis að það er vart boðlegt til umræðu enda er þar ekki að finna nokkurn skapaðan hlut. Röksemdafærsla formanns allshn. er aðeins sú og sú ein að einhverjir dómar séu farnir að nálgast umrædd tíu ár og því beri að bregðast við. Þessu hafa dómarar andmælt, þessu hafa lögmenn andmælt.

Þegar öllu er á botninn hvolft er kannski ekki aðalatriði hvort hér er um að ræða tíu ár, tólf ár eða eitthvað annað. Aðalatriðið er það að hér hefur verið dregið fram hvernig og hvaða viðhorf og hvaða stefna er núna uppi hjá dómsmálayfirvöldum og hvernig bregðast skuli við brotum. Ég er ekkert viss um það að menn séu á eitt sáttir um að leiðin til þess að bregðast við afbrotum sé sú að þyngja refsingar. Ég er sannfærður um að það mun kalla á miklu harðara og grimmara samfélag, það eru miklu meiri hagsmunir í húfi og því er hér um stórt hugmyndafræðilegt mál að ræða hvernig haldið er á þessum þáttum. Eins og ég sagði áðan finnst mér það vera vanvirðing að þetta skuli ekki vera rökstutt miklu betur, að menn hafi ekki unnið heimavinnu sína um það hvaða áhrif hertar refsingar hafa haft í þessum málaflokki og hver séu í raun og veru fælingaráhrifin á þessu sviði.

Sú umræða sem hefur farið fram hefur aðeins dregið það fram að hér er á ferðinni eitthvert tilfallandi verkefni sem ráðuneytið hefur talið nauðsynlegt að ráðast í. Það hefur ekki talið æskilegt eða nauðsynlegt að hefja einhverja vinnu, undirbúa málið. Því sitjum við í raun og veru uppi með það að ætlunin er sú að hækka refsingar vegna brota í fíkniefnamálum úr tíu í tólf ár. Af hverju? Við erum engu nær. Hver eru markmiðin? Við erum engu nær. Við vitum í raun og veru ekkert meira um málið nú eftir að það hefur komið til umræðu, þ.e. hvað meiri hlutinn vill, en við vissum þegar lagt var af stað. Þetta er kjarni málsins.

Þó hefur það verið dregið fram að stefna þessarar ríkisstjórnar er sú að herða refsingar við öllum brotum. Þar skilja leiðir, a.m.k. á milli þess sem hér stendur og hæstv. ríkisstjórnar.