Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 17:06:47 (6731)

2001-04-24 17:06:47# 126. lþ. 110.18 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, Frsm. meiri hluta ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[17:06]

Frsm. meiri hluta allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Hér hafa að mínu mati fallið nokkuð stór orð í þessari umræðu og þá sérstaklega í máli hv. þm. Samfylkingarinnar og fyrir margra hluta sakir kannski merkilegar yfirlýsingar af þeirra hálfu en þær eru það viðkvæmar að það má kannski ekki ræða þær.

Virðulegi forseti. Ég vil mótmæla því eindregið að ekki hafi farið fram vönduð vinna á vegum allshn. Hún var afskaplega vönduð og það var farið afar vel yfir bæði umsagnir og þær athugasemdir sem komu fram þar. Ég dreg ekkert dul á að það er mismunandi hjá umsagnaraðilum hvort rétt sé að stíga einmitt þetta skref. En það er ekki þannig að allir umsagnaraðilar séu alfarið á móti þessu. Dómstólaráð er ekki á móti frv. sem slíku, það mælir ekki gegn því. Það kemur með ákveðna punkta sem eru mjög góðir einmitt inn í umræðuna og voru teknir til umræðu innan allshn. en þetta eru þeir hlutir sem við, bæði minni hluti og meiri hluti allshn. og síðan hv. Alþingi, þurfum að taka síðan tillit til og vega og meta.

Eins og ég las upp áðan í fyrstu ræðu minni er alveg ljóst að það er mat ríkissaksóknara að af dómaframkvæmd verði það ráðið að með refsimati dómstóla hafi refsimörk 173. gr. a almennra hegningarlaga verið nánast nýtt að fullu, hæstv. forseti, í alvarlegustu fíkniefnabrotum. Þetta er eitt af álitunum. En þessu gleyma hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og Guðmundur Árni Stefánsson eða kannski hentar ekki að lesa það upp.

Þegar upp var staðið var það einfaldlega mat okkar í meiri hluta allshn. að rétt væri að fara þá leið að hækka refsimörkin úr tíu árum í tólf. Það er einfaldlega okkar að taka afstöðu til þess á grundvelli þeirra gagna sem liggja fyrir. Það hafa líka komið upp spurningar í umræðunni: Af hverju ekki 15, 20 eða 25 ár? Það er líka mat okkar og í samræmi við það þegar refsimörk eru víkkuð út eða hækkuð, hvort sem það er í einhverjum öðrum brotaflokkum úr einu ári upp í þrjú ár eða úr fimm í sjö og núna í þessum brotaflokki úr 10 í 12, að þá er þessi hækkun einmitt úr 10 í 12 ár algjörlega í samræmi við lagahefð og lagaframkvæmd hér á landi.

Í Noregi er að hluta til farið upp í 15 ár og í mjög alvarlegum brotum farið upp í 21 ár. Í Svíþjóð og Danmörku er rætt um 10 ár og þar hefur m.a. verið umræða uppi um að hækka þau refsimörk þannig að við erum engan veginn eitthvað úti úr kortinu með það að hækka refsimörkin úr 10 árum í 12. Þetta var ekki ákveðið á kaffistofunni, eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson orðaði það svo smekklega áðan, að þetta hefði dottið bara svona tilviljunarkennt niður. Þetta er afar vel hugsað og rökstutt.

Herra forseti. Þá er kannski stóra málið í því að við vitum öll hver varnaðaráhrif refsinga eru. Þau eru líka umdeild. En þegar allt er metið og allt er virt þá tel ég að þetta sé rétt leið. Auðvitað er löggjafinn að senda ákveðin skilaboð og menn verða þá bara að segja það og þeir sem vilja ekki senda þessi skilaboð senda þá út einhver önnur skilaboð. En það er mat mitt að með því að hækka þessi refsimörk upp í 12 ár þá eru skilaboðin skýr. Við lítum þessi alvarlegri fíkniefnabrot mjög alvarlegum augum og í rauninni má segja að það sé líka á vissan hátt pólitísk ákvörðun.

Það hefur líka verið talað um af hverju við aukum ekki við lágmörkin í almennum hegningarlögum og bætum þeim inn. Það er líka ákveðin lagahefð fyrir því þó það séu ákveðnar undantekningar til staðar í almennum hegningarlögum um ákveðin lágmörk við ákveðnum brotategundum. En ástæðan fyrir því að löggjafinn fram til þessa hefur ekki verið að binda um of lágmörk í almennum hegningarlögum er einfaldlega sú að við höfum ekki viljað á lægri sviðum --- bæði í minni og alvarlegri brotum --- binda hendur dómstóla um of. Það er hægt að nefna dóma í því sambandi, t.d. einn manndrápsdóm u.þ.b. 15 ára gamlan þar sem dómstólar mátu aðstæður þannig að sakborningur var dæmdur í skilorðsbundið fangelsi. Það hefðu ekkert allir skilið af hverju sakborningur í manndrápsmáli hafi verið dæmdur í skilorðsbundið fangelsi. En þegar menn lesa dóminn og dómsforsendur eru þær ástæður mjög skiljanlegar. Þegar það er litið á þessi mál í heild að mínu mati tel ég ekki rétt að fara þá leið að binda um of lágmörk í greinar almennra hegningarlaga.

Ég ætla ekki að hafa þetta miklu lengra, herra forseti. Ég tel að það skref sem við erum að stíga núna sé í fullu samræmi við það sem hingað til hefur verið gert varðandi þau skref sem hafa verið tekin í lagaframkvæmdinni um að auka refsimörkin og hins vegar það að við erum engan veginn úr takti við það sem er að gerast á Norðurlöndum. Auðvitað þarf að athuga þessi mál gaumgæfilega og það hefur verið gert og það er bara einfaldlega komið að okkur að taka afstöðu. Menn verða þá að þora að segja það: Þetta er ákveðin afstaða. Ég held að þetta sé skynsamleg leið og ég mæli eindregið gegn þeirri tillögu hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar að þetta mál fari aftur til allshn.