Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 17:16:31 (6733)

2001-04-24 17:16:31# 126. lþ. 110.18 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, Frsm. meiri hluta ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[17:16]

Frsm. meiri hluta allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki verið sammála orðum hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar því að dómstólaráðið segir í lok umsagnar sinnar, með leyfi forseta:

,,Dómstólaráð telur samkvæmt framansögðu hvorki rétt að mæla með framangreindri lagabreytingu né leggjast gegn henni.``

Þetta er nákvæmlega það sem ég sagði áðan. Dómstólaráð sér sér ekki fært að mæla gegn þessari lagabreytingu en það mælir heldur ekki með henni, tekur í rauninni ekki beina afstöðu. Aftur á móti koma afskaplega ágætar ábendingar frá dómstólaráði, hugleiðingar vil ég meina, um varnaðaráhrif refsinga og hvað harðari refsingar geti hugsanlega haft í för með sér. En þetta er allt sem snýr síðan að okkur. Við hv. þm. verðum að þora að taka afstöðu á grundvelli þeirra gagna sem liggja fyrir. Það er nákvæmlega það sem hefur verið gert. Við mátum þessi gögn, við mátum þær staðreyndir sem liggja fyrir í málinu og teljum að á grundvelli þeirra sé engan veginn aðfinnsluvert að auka refsirammann úr 10 árum í 12. Þar fyrir utan vil ég enn og aftur ítreka það sem ríkissaksóknari sagði og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson vildi gera lítið úr þeim orðum sem efnislega eru á þessa leið, með leyfi forseta:

,,Af hálfu ríkissaksóknara er tekið undir þá ályktun í athugasemdum við frv., sem dregin er af dómaframkvæmd, að með refsimati dómstóla hafi refsimörk 173. gr. a almennra hegningarlaga verið nýtt nánast að fullu í alvarlegustu fíkniefnabrotum.``

Þetta eru orð sem koma frá ríkissaksóknara. Auðvitað verður að taka tillit til þeirra eins og annarra og meta þau.