Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 17:18:30 (6734)

2001-04-24 17:18:30# 126. lþ. 110.18 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[17:18]

Frsm. minni hluta allshn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stundum getur karpið á hinu háa Alþingi farið að snúast um hvorki stóra né mikla hluti. Ég er hræddur um að það hafi gert það í þessu tilviki.

Það sem við höfum verið að reyna að draga hér fram er að þegar menn breyta og hækka refsingu úr 10 í 12 ár þurfi að rökstyðja það, menn þurfi að skýra hvað verið er að fara. Það hefur ekki verið gert og það er sú umræða sem við höfum verið að kalla eftir. Hvaða breytingar hefur það fyrir samfélag okkar að herða refsingar? Hvers konar samfélag munum við fá út úr því? Við erum að reyna að kalla eftir slíkri umræðu en það er eiginlega bara snúið út úr.

En vegna þess að verið er að lesa úr athugasemdum ríkissaksóknara sem eru sjö línur, allt og sumt, virðulegi forseti. Það eru sjö línur og af því að hv. formaður allshn. las þrjár, þá er kannski spurning hvort ég leyfi mér að lesa tvær, með leyfi forseta:

,,Að öðru leyti hefur ríkissaksóknari ekki athugasemdir eða ábendingar fram að færa vegna lagafrumvarpsins.``

Þetta er sem sagt stóra fjarvistarsönnun meiri hlutans gagnvart því að einhvers staðar sé einhver sérfræðingur á sviði refsinga, rannsókna, afbrotafræði eða hvað sem er sem taki undir þetta. Þetta er stóra fjarvistarsönnunin fyrir því að menn geti komið hér inn og lagt þetta fram og sagt: Af því bara. Við ætlum bara að hækka refsingar. Af því bara, af því að bregðast eigi hart við alvarlegum brotum. Afleiðingar af þessum gjörðum hafa ekki einu sinni verið hugleiddar.