Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 17:22:58 (6736)

2001-04-24 17:22:58# 126. lþ. 110.18 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[17:22]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Formaður allshn. kvartaði yfir því í ræðu sinni að stór orð hefðu verið látin falla í umræðunni. Þar sem ég var einn af þremur ræðumönnum sem gagnrýndu þessi vinnubrögð og þetta verklag nefndarinnar, þá tek ég það til mín.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því, herra forseti, að stærstu orðin hrutu ekki af vörum mínum heldur voru tilvitnun í umsagnir dómstólaráðs og Lögmannafélags Íslands. Þar er hinar alvarlegu athugasemdir málsins að finna.

Herra forseti. Það er alveg nauðsynlegt að kalla eftir því skýrt og ákveðið þar sem umsagnir bárust nefndinni frá Landssambandi lögreglumanna, Mannréttindaskrifstofunni, laganefnd Lögmannafélagsins, dómstólaráði, Fangelsismálastofnun og ríkissaksóknara, hver þessara aðila mælti með frv.? Hver af þessum umsagnaraðilum mælti með samþykkt frv.? Þetta er klár og kvitt spurning. Ég hef af yfirferð gagna ekki séð einn einasta umsagnaraðila sem hefur mælt með því sérstaklega að frv. verði samþykkt óbreytt. Þetta er kjarni málsins.

Herra forseti. Ég er engu nær um þær röksemdir sem að baki liggja. Það liggur algerlega ljóst fyrir að það er í tveimur tilvikum sem dómareynsla hefur komist nærri hæstu mörkum refsirammans og það er mat dómara og það er mat lögmanna á Íslandi að það pípi hvergi og engin krafa sé um það neins staðar að hækka þurfi refsirammann af þeim sökum þannig að fullyrðingar í greinargerð standast einfaldlega ekki. Ríkissaksóknari tekur ekki neina efnislega afstöðu til frv. Það er hins vegar verk ríkissaksóknara eðli máls samkvæmt að ganga eins langt og hann nokkru sinni kemst og það er síðan dómstóla að úrskurða með sanngirni. Það kemur mér því ekki á óvart þó að ríkissaksóknari vilji ganga langt. Það er eðli embættis hans.