Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 17:25:11 (6737)

2001-04-24 17:25:11# 126. lþ. 110.18 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, Frsm. meiri hluta ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[17:25]

Frsm. meiri hluta allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla rétt að renna yfir þær umsagnir sem ég hafði á borðinu hjá mér um frv. og ég held að þær séu í rauninni í samræmi við það sem tíðkast við svona lagafrv. Það er ekki beint verið að mæla með en heldur ekki gegn því.

Hér segir, með leyfi forseta: ,,Mannréttindaskrifstofan mun hvorki mæla með né á móti breytingum þeim á hámarksrefsingu sem mælt er fyrir í ofangreindu frumvarpi.``

Hérna er önnur tilvitnun, með leyfi forseta:

,,Um leið og framkvæmdastjórn LL þakkar erindið vill hún koma á framfæri að engar athugasemdir eru af hálfu LL við frumvarp þetta.``

Ég hef marglesið undirtektir ríkissaksóknara varðandi athugasemdir í frv. og það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni að ríkissaksóknari hnykkir með þessum orðum í umsögn sinni, með leyfi hæstv. forseta:

,,Að öðru leyti hefur ríkissaksóknari ekki athugasemdir eða ábendingar fram að færa vegna lagafrumvarpsins.``

Síðan er auðvitað rétt að taka fram, af því að hv. þm. hafa verið að vitna svo óspart í laganefnd og umsögn laganefndar Lögmannafélagsins, að þetta er ekki samróma umsögn, því hér stendur, með leyfi forseta:

,,Rétt er að benda á að einn nefndarmanna var ósammála umsögn meiri hluta laganefndar og sér ekki ástæðu til að gera athugasemdir við efni frumvarpsins.``

Herra forseti. Þetta er í rauninni það sem málið snýst um. Hægt er að finna ýmsa fleti á málinu en þegar upp er staðið verðum við að taka afstöðu og þora að gera það. Við gerum það á grundvelli gagna.