Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 18:30:25 (6753)

2001-04-24 18:30:25# 126. lþ. 110.18 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv. 32/2001, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[18:30]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég hélt satt að segja að það væri auðsótt mál að fá samþykki hv. formanns allshn. fyrir því að málið yrði tekið aftur milli 2. og 3. umr., ekki síst þegar í ljós hefur komið að málið hefur ekki verið rætt á grundvelli þessarar þáltill. í nefndinni og núv. formaður allshn. hefur ekki vitað um tilvist þessarar rannsóknar. Jafnvel þó að hv. formaður nefndarinnar standi í hliðarherbergi og fái einhverjar upplýsingar í eyrað frá aðstoðarmanni dómsmrh., sem ég hygg að hún sé að tala við, nægir það vitanlega ekki og er ekki þingmönnum bjóðandi upp á það að taka afstöðu til þessa frv. á grundvelli þess sem formaðurinn hefur upplýst nú við þessa umræðu.

Í mínum huga á nefndin tvímælalaust heimtingu á því að verða kölluð saman og að formaður þeirrar nefndar sem stendur að þessari rannsókn komi á fund nefndarinnar til að greina henni frá því hvar málið standi. Við höfum ekki einu sinni upplýsingar um hvort nefndin, sem ég veit að átti að fara áfangaskipt í þessa vinnu, hefur tekið fyrir eitthvað af þeim þremur brotaflokkum sem hér eru nefndir, þ.e. alvarlegar líkamsárásir, kynferðisbrot eða fíkniefnabrot, hvort hún hafi lokið einhverjum þætti þeirra, hvort hún er með fíkniefnabrotin á borði sínu núna eða hvort ákveðið hafi verið að fara í kynferðisbrotin fyrst. Ég er alveg viss um að hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir getur heldur ekki upplýst okkur um það.

Það er lágmark að fá upplýsingar um stöðu mála þegar þetta er mikilvægt grundvallaratriði í því máli sem hefur verið deilt um í nokkra tíma. Annað eru ekki eðlileg vinnubrögð, herra forseti. Minni hlutinn hlýtur að mótmæla því að þannig sé staðið að málum. Þetta eru ófagleg vinnubrögð, það er þinginu til skammar ef á að afgreiða málið þannig.

Þetta er grundvallaratriði burt séð frá frv. og hvaða efnislega afstöðu menn hafa til þess hvort það eigi að færa refsinguna úr 10 árum upp í 12. Þetta er grundvallaratriði fyrir fagleg vinnubrögð sem þingið á að hafa í heiðri að þegar þingið hefur samþykkt fyrir þremur árum að það skuli fara út í slíkar rannsóknir áður en refsiramma verði breytt í þeim þremur brotaflokkum, sem ég hef nefnt, þá getur þingið ekki látið bjóða sér að þáv. formaður nefndarinnar, sem er núv. dómsmrh., sem beitti sér á þinginu fyrir þessum faglegu vinnubrögðum, skuli þá ekki ástunda þau sjálf þegar hún er sest í sæti dómsmrh. heldur flytja mál þar sem á að breyta refsirammanum, sem er umdeilt eins og hefur komið fram og ýmsir umsagnaraðilar, ef ég hef skilið málið rétt á þessum degi, hafa ekki fallist á og mótmælt, að hún skuli ekki beita sér fyrir því að þingnefndin fái upplýsingar um stöðu mála.

Vissulega er alveg hægt að viðurkenna það og fallast á það og ekkert við því að segja ef nefndin hefur ekki lokið umfjöllun sinni um málið, það er ekkert við því að segja, herra forseti, en það er ótækt að afgreiða málið héðan frá þinginu án þess að það fái þá yfirferð í nefnd sem hefur hér verið kallað eftir, ekki bara af mér heldur af tveimur síðustu ræðumönnum, 5. þm. Norðurl. v. og 17. þm. Reykv., og a.m.k. annað þeirra á sæti í nefndinni.

Herra forseti. Ég freista þess enn og aftur að kalla eftir því við formann nefndarinnar og sé ekki að það tefji neitt málið --- að nefndin fjalli um málið milli 2. og 3. umr. Hér er að hefjast mikil vinna í þingnefndum og getur ekki verið mikið mál að nota eins og hálftíma af fundatíma nefndarinnar til að fara yfir stöðu mála. Annað er ekki hægt að una við, herra forseti.

Ég spyr formann nefndarinnar hvort henni finnist eðlilegt að verða ekki við þessari ósk og hvort henni finnist eðlilegt núna þegar hún hefur þá vitneskju sem formaður nefndarinnar, sem ég veit að vill viðhafa fagleg vinnubrögð, hún hefur sýnt það í störfum sínum, að þegar hún fær þessa vitneskju í miðri umræðunni, núna við lok 2. umr., hvort hún telji ekki nauðsynlegt að fara yfir stöðuna og að óeðlilegt sé að afgreiða málið --- sem mér finnst a.m.k. --- án þess að niðurstaða nefndarinnar liggi fyrir. Ég skírskota til þess að hv. þm. vill viðhafa fagleg vinnubrögð og nú þegar hún hefur þessa vitneskju um þessa rannsókn hvort hún telji ekki eðlilegt og sanngjarnt af hálfu nefndarmanna, sem eftir því hafa viljað kalla, að nefndin komi saman áður en málið gengur til 3. umr.