Viðurkenning á menntun og prófskírteinum

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 18:46:40 (6760)

2001-04-24 18:46:40# 126. lþ. 110.21 fundur 591. mál: #A viðurkenning á menntun og prófskírteinum# (EES-reglur) frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[18:46]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, sem fyrir liggur á þskj. 934.

Eins og þingmenn sjá er þetta frv. ákaflega einfalt í sniðum. Það er í raun og veru verið að flytja þarna tillögu um lagabreytingu sem tekur mið af tilskipunum Evrópusambandsins og niðurstöðum þar um tilhögun viðurkenningar á menntun og hæfi með tilliti til atvinnustarfsemi sem fellur undir tilskipanir um afnám hafta og bráðabirgðaráðstafanir og um viðbót við almennu kerfin til viðurkenningar á menntun og hæfi.

Þessi nýja tilskipun sem við erum að taka tillit til með þessari lagabreytingu var samþykkt í júní 1999 og á að vera komin til framkvæmda í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins fyrir 31. júlí 2001.

Með samþykkt þessarar nýju tilskipunar eru margar eldri tilskipanir felldar úr gildi og ákvæði þeirra sameinuð í þessari einu tilskipun. Hv. þm. hafa því þegar fjallað um meginefni þessa máls þegar fyrri lagabreytingar hafa verið gerðar varðandi þennan þátt, en með þessu er verið að setja þetta upp með skipulegri hætti og taka tillit til þeirra breytinga sem orðið hafa í Evrópulöggjöfinni að því er varðar starfsréttindi og viðurkenningu á þeim og menntun til starfsréttinda.

Ég legg til, herra forseti, að þetta frv. fari til hv. menntmn. eftir þessa umræðu.