Leikskólar

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 18:48:57 (6761)

2001-04-24 18:48:57# 126. lþ. 110.22 fundur 652. mál: #A leikskólar# (starfslið) frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[18:48]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég flyt hér frv. til laga um breyting á lögum um leikskóla, nr. 78/1994.

Frumvarp þetta er flutt að ósk Sambands íslenskra sveitarfélaga í samræmi við sameiginlega niðurstöðu Félags íslenskra leikskólakennara og launanefndar sveitarfélaga í tengslum við samþykkt nýs kjarasamnings þar sem er að finna svofellda sameiginlega yfirlýsingu þessara aðila, og mun ég lesa úr henni, með leyfi hæstv. forseta:

,,Vegna þess að ekki hefur tekist að uppfylla ákvæði 12. gr. laga nr. 78/1994, um leikskóla, um að það starfslið sem annast uppeldi og menntun barna í leikskólum skuli hafa leikskólakennaramenntun og ekki er fyrirséð að það takist á næstu árum, lýsa aðilar þessa samnings því yfir að þeir muni beita sér sameiginlega fyrir því að gerð verði breyting á lögum, sem skilgreinir sérstaklega ábyrgðarhlutverk leikskólakennarans við uppeldi og menntun innan leikskólans og stjórnunarábyrgð hans gagnvart aðstoðarfólki sem ekki hefur leikskólakennaramenntun. Aðilar eru sammála því að til lengri tíma skuli stefnt að því að allir starfsmenn leikskóla sem annast uppeldi og menntun skuli hafa leikskólakennaramenntun.

Með framangreint að leiðarljósi hvetja samningsaðilar bæði sveitarfélög og leikskólastjóra til að haga ráðningarmálum í leikskólum á þann veg að allar stjórnunarstöður hafi forgang hvað mönnun varðar. Þannig verði lögð aukin áhersla á að allar deildir leikskóla verði undir stjórn leikskólakennara.``

Í frumvarpi þessu er lagt til að 12. gr. leikskólalaga verði breytt til samræmis við þessa sameiginlegu niðurstöðu Félags leikskólakennara og launanefndar sveitarfélaga.

Þá er enn fremur lagt til að í stað orðsins uppeldisstefna í 2. og 3. mgr. 4. gr. laganna verði notað heitið aðalnámskrá leikskóla um uppeldismarkmið í starfi leikskóla, en það er í samræmi við það að við höfum gefið út aðalnámskrá leikskóla í staðinn fyrir uppeldisáætlun sem áður var í gildi.

Ég vil vekja athygli á því, herra forseti, um leið og ég legg þetta frv. fram með þessum rökstuðningi, að eins og hér kemur fram er það flutt að ósk þessara samningsaðila sem koma að rekstri leikskólanna. En það er einnig tekið hér á málefni sem hefur verið til umræðu á Alþingi áður. Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir flutti hér m.a. tillögu sem er efnislega skyld því sem hér er fjallað um í þessum lagabreytingum þannig að hér er verið að koma til móts við sjónarmið sem fleiri hafa haft uppi um að nauðsynlegt sé að unnt sé að koma til móts við starfsfólk án leikskólakennaramenntunar sem starfar á vettvangi leikskólanna og veita því stöðu innan stofnananna á grundvelli lagaákvæðis og það er það sem hér er um að ræða.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til hv. menntmn.