Ný námsbraut við Sjómannaskóla Íslands

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 19:24:46 (6772)

2001-04-24 19:24:46# 126. lþ. 110.29 fundur 664. mál: #A ný námsbraut við Sjómannaskóla Íslands# þál., Flm. GHall (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[19:24]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Á þskj. 1042 hef ég lagt fram þáltill. um nýja námsbraut við Sjómannaskóla Íslands. Meðflutningsmenn ásamt mér að tillögunni eru hv. þm. Árni Ragnar Árnason, Guðjón Guðmundsson, Kristján Pálsson og Guðjón A. Kristjánsson.

Tillagan er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra athugun á möguleikum þess að við Sjómannaskóla Íslands verði stofnað til viðbótarnáms, námskeiðs, er lýtur að störfum skipstjórnarmanna á skemmtiferðaskipum. Námið verði með alþjóðlegu sniði, kennsla fari fram á ensku en tímalengd og umfang námsins ráðist af þeim kröfum sem gerðar eru í dag til öryggis og rekstrar skemmtiferðaskipa.

Nám þetta verði viðbót við hefðbundið skipstjórnarnám, stýrimanna og vélstjóra, en miðist fyrst og fremst við umfangsmikinn rekstur skemmtiferðaskipa.``

Á undanförnum árum hefur hlutdeild skemmtiferðaskipa í ferðamannafjölda stóraukist. Talið er að aukning í þessari grein, miðað við farþegafjölda, hafi verið 8% að meðaltali sl. 15 ár. Nú eru 53 skemmtiferðaskip í pöntun hjá skipasmíðastöðvum víðs vegar um heiminn en smíði þeirra síðustu á að vera lokið árið 2003.

Hér er um að ræða viðbót við þann flota sem fyrir er.

Talið er að á næstu fimm árum þurfi u.þ.b. 100.000 nýja starfsmenn í áhafnir skemmtiferðaskipanna.

Mjög erfitt reynist að finna og fá skipstjóra, stýrimenn og vélstjóra frá Vestur-Evrópulöndum til starfa, m.a. vegna þess að ungt fólk er orðið fráhverfara sjómennsku en áður var og æ færri stunda nám í sjómannaskólum. Á hinn bóginn sækjast flest félög, sem reka skemmtiferðaskip, eftir evrópskum yfirmönnum, og er þess oft getið í kynningu og sölugögnum viðkomandi skips fyrir farþega að yfirmenn séu frá Evrópu og þykir það mjög traustvekjandi.

Til þess að gera störf yfirmanna eftirsóknarverðari hafa kjörin verið bætt, sem m.a. felst í því að tvær áhafnir yfirmanna eru tengdar hverju skipi. Stöður yfirmanna eru þá að sjálfsögðu fleiri og frítíminn meiri. Einnig þurfa útgerðir skemmtiferðaskipa skipstjórnarmenn til starfa í landi við margs konar stjórnunarstörf.

Útgerðarfyrirtæki hafa vissulega reynt að bregðast við þessum vanda, m.a. leitað eftir skipstjórnarmönnum frá Austur-Evrópu, en þá er vandinn málakunnátta. Önnur útgerðarfyrirtæki hafa snúið sér til menntamálayfirvalda í viðkomandi landi og hvatt til aukinnar áherslu á þær greinar sem áður voru nefndar. Önnur leggja mikla áherslu á innri starfsmenntunarmál og samvinnu við sjómannaskóla víða um heim. Fram hefur þó komið að ákveðna og skipulagða kennslu vanti á þessu sviði.

Flutningsmenn telja mikla möguleika felast í kennslu og fræðslu á þessu sviði hér á landi í ljósi þess hve umfangsmikil þessi grein ferðamála er orðin og fer ört vaxandi. Þessi vöxtur er hvatning fyrir Íslendinga, jafnt einstaklinga sem fyrirtæki, til frekari þátttöku í alþjóðasiglingum. Þá má benda á að með þessu námi mundi sjómannaskólahúsið nýtast allt árið og einnig nýjar nemendaíbúðir við Sjómannaskólann ásamt íbúðum við Kennaraháskólann. Þá má ætla að nám erlendra manna hér á landi vegna reksturs skemmtiferðaskipa gæti, til langs tíma litið, leitt til þess að komum slíkra skipa til Íslands fjölgaði verulega.

Herra forseti. Að svo mæltu legg ég til að þessari þáltill. verði að lokinni fyrri umræðu vísað til hv. menntmn.