Ný námsbraut við Sjómannaskóla Íslands

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 19:32:13 (6775)

2001-04-24 19:32:13# 126. lþ. 110.29 fundur 664. mál: #A ný námsbraut við Sjómannaskóla Íslands# þál., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[19:32]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir upplýsingarnar og efa ekki að heimildarrit hans, Símaskráin, nýtist honum til ýmissa hluta. En ég hef yfirleitt lagt í vana minn að skoða önnur plögg en Símaskrána þegar ég er að velta fyrir mér skólamálum en þetta getur vissulega komið að gagni og nýtist vonandi til skýringar á þessu.

Miðað við þessar upplýsingar er þarna um að ræða Stýrimannaskólann og Vélskólann sem þetta safnheiti er notað yfir.

En vegna orða hv. þm. um að ljóst sé í tillögunni að ekki sé ætlunin að þessi skóli verði starfræktur á Egilsstöðum, þá sýnist mér það líka vera ágætlega til fundið, þó svo að einhver hluti af því námi gæti vissulega farið þar fram.

En ég bendi honum á það í fullri vinsemd að í þeim ágæta landshluta þar sem Egilsstaðir eru erum við vissulega með skóla við sjávarsíðuna sem einmitt er að velta fyrir sér sjómannanámi af ýmsu tagi (Menntmrh.: Og farþegaskip á leiðinni.) og farþegaskip á leiðinni í fjórðunginn eins og hæstv. menntmrh. bendir á. Það er eina skemmtiferðaskipið sem siglir hingað reglulega, það kemur akkúrat þar inn. Það væri því ekki ónýtt að geta tengt þetta saman.

Ég lofa hv. þm. því að ég mun skoða þetta með jákvæðum huga í menntmn. og ég vona að við getum ýtt þessu máli eitthvað fram þó svo við þurfum kannski að lagfæra tillöguna eitthvað örlítið til þess.