Frumvarp um almenn hegningarlög

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 13:34:40 (6778)

2001-04-25 13:34:40# 126. lþ. 111.91 fundur 483#B frumvarp um almenn hegningarlög# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 126. lþ.

[13:34]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér kemur til atkvæðagreiðslu frv. til laga um breytingu á almennum hegningarlögum sem felur í sér útvíkkaðan refsiramma vegna alvarlegra fíkniefnabrota, fjölgað er úr tíu árum í tólf vegna alvarlegra brota á þessu sviði.

Þetta frv. var mikið rætt í þinginu í gær og þar kom fram af hálfu stjórnarandstöðunnar að mikilvægt væri að málið fengi frekari umfjöllun í allshn. eins og hér hefur verið borin fram formleg ósk um. Ég vil taka undir þá ósk að málið komi að nýju fyrir allshn. og verði þá skoðað í ljósi annarra mála sem tengjast þessu frv. og hafa ekki fengið viðhlítandi afgreiðslu. Munum við í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sitja hjá við atkvæðagreiðslu frv. núna en við tökum undir óskir um að málið komi til umræðu að nýju í allshn.