Frumvarp um almenn hegningarlög

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 13:38:24 (6780)

2001-04-25 13:38:24# 126. lþ. 111.91 fundur 483#B frumvarp um almenn hegningarlög# (aths. um störf þingsins), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 126. lþ.

[13:38]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Vegna orða hv. þingmanna tek ég undir það að rétt er að ákveðin tillaga var rædd í allshn. fyrir nokkrum árum þegar ég var þar formaður og samþykkt var að af stað færi rannsókn á viðurlögum við afbrotum. Marga brotaflokka átti þar að skoða. Engin sérstök nefnd var mynduð í því sambandi heldur var ákveðið að fá fólk til þess að fara í þetta mál, bera saman viðurlög við afbrotum og ýmsa aðra þætti sem tengjast afbrotum. Það er ósköp eðlilegt og þannig á auðvitað að vinna þegar verið er að móta refsistefnu.

Hins vegar blasir við að orðið hefur þvílík breyting til hins verra varðandi fíkniefnamálin núna á stuttum tíma á síðustu árum að það verður að grípa til þess að rýmka refsirammann nú þegar. Þannig er að hámarksrefsing er núna tíu ár. Það er lagt til í þessu frv. að farið verði upp í tólf ár. Það er bara refsiramminn. Það er enginn sem segir til um það að dómarar skuli endilega herða refsingu eða þyngja dóma. Það er þeirra mat. En ef við lendum í því að hér komi í einhverjum mæli til landsins efni eins og t.d. heróín þá verða dómstólarnir að vera reiðubúnir til þess að geta tekið alvarlega á þeim málum. Við erum að senda skilaboð út í þjóðfélagið um að þingið líti þessi mál mjög alvarlegum augum og ég hef ekki orðið vör við annað en að hv. þingmenn séu mér sammála um að það. En það er auðvitað sjálfsagt fyrir nefndina að fylgjast með því hvaða upplýsinga er verið að afla. Nú þegar er verið að skoða þessi mál og ég geri ráð fyrir að þeirri vinnu verði fljótlega lokið. Hins vegar er ekki hægt að bíða með þetta mál sem liggur fyrir þinginu.

Hegningarlög eru stöðugt í endurskoðun. Það er líka sérstök refsiréttarnefnd í dómsmrn. sem fylgist með þróun í þessum málum. Fyrir nokkrum árum var breytt heilum kafla varðandi kynferðisbrot. Hvar stæðum við nú ef við hefðum beðið þá eftir frekari upplýsingum?