Frumvarp um almenn hegningarlög

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 13:43:57 (6783)

2001-04-25 13:43:57# 126. lþ. 111.91 fundur 483#B frumvarp um almenn hegningarlög# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 126. lþ.

[13:43]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Mér finnst ekki gott að sitja undir því að ekki sé hægt að fá svör um það hvort taka eigi þetta mál til meðferðar í nefndinni. Allir hljóta að hafa átt von á því að formaður nefndarinnar kæmi hér upp og gæfi út yfirlýsingu um hvort hún mundi kalla þetta mál inn í nefndina eða ekki. Það hefur ekki gerst. Ég held því miður að maður verði að taka því þannig að það standi ekki til. Eða hvað? Það væri alla vega betra fyrir umræðuna að það kæmi skýrt fram hvað menn ætlast fyrir í þessu. Mér finnst það líka lágmarkskurteisi og að full ástæða sé til þess að gera það. Það þarf ekki að tefja málið á nokkurn hátt þótt það verði gert. Hér hafa verið færð fram góð rök fyrir því að fara yfir málið. Og er það ekki nóg? Ég vitna bara til þess sem þeir sem hafa verið á undan mér í stólnum hafa sagt um þetta efni. Mér finnst satt að segja ansi erfitt að búa við það að geta ekki fengið svör í þingsalnum við því hvort nefndin eigi að fara yfir þetta mál á milli umræðna eða ekki.