Frumvarp um almenn hegningarlög

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 13:47:15 (6785)

2001-04-25 13:47:15# 126. lþ. 111.91 fundur 483#B frumvarp um almenn hegningarlög# (aths. um störf þingsins), LB
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 126. lþ.

[13:47]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Mér finnst heldur miður í ljósi þess að það var dregið mjög skýrt fram í gær að málið er algerlega vanbúið. Við kölluðum mjög ítarlega eftir því að þær upplýsingar sem er augljóslega verið að ná í með þessari rannsókn væru lagðar fram. Það yrði skýrt nákvæmlega hvert væri markmiðið með þessu frv. Það kom hvergi fram. Það kom fram að málið er algerlega vanbúið. Þess vegna erum við að óska eftir því að málið gangi aftur til nefndar í því skyni að kalla þessar upplýsingar fram og þá er hægt að fjalla um það sem við gagnrýndum mjög harðlega í gær.

Hins vegar, virðulegi forseti, verð ég að segja að það er mjög merkilegt í ljósi þess að það var auglýst mjög markvisst eftir hæstv. dómsmrh. í umræðunni í gær að hann skuli síðan koma og taka upp efnisumræðu um málið þegar verið er að ræða störf þingsins. Það er dálítið sérstakt og það hefði verið miklu eðlilegra að hæstv. dómsmrh. hefði verið á vettvangi í gær og tekið þátt í fjögurra tíma umræðu sem varð um málið.

Við óskuðum líka eftir því að málinu yrði frestað í ljósi þess að hæstv. ráðherra var ekki við. Ekki var hægt að verða við því þannig að þetta er vægast sagt dálítið sérstakt.

Kjarni málsins er sá að við ítrekum þessa kröfu. Við verðum að fá málið aftur inn í allshn. til að geta fjallað um það grundvallaratriði hvað býr að baki þessu frv., hvert er markmiðið o.s.frv. Þá er kannski rétt að rifja það upp fyrir hæstv. dómsmrh. af því að hann fjallaði áðan um það að dómstólar kveða upp úr um hversu langar refsingarnar eiga að vera en ekki Alþingi og bæði dómarar og Lögmannafélagið leggjast gegn þessum breytingum.