Almenn hegningarlög

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 13:58:45 (6791)

2001-04-25 13:58:45# 126. lþ. 111.2 fundur 313. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefnabrot) frv., SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 126. lþ.

[13:58]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í efnisumræður um þetta mál við þessar aðstæður og vildi ekki gera það áðan undir liðnum um störf þingsins. En þar kom fram mjög skýr og einföld beiðni af þinglegu tagi um að allshn. taki málið til skoðunar á nýjan leik milli 2. og 3. umr. Þetta var tiltölulega vel rökstudd beiðni og það er algerlega fráleitt að hafna slíkri ósk, herra forseti.

Ég minni menn á þær ræður sem hér voru fluttar til grundvallar því að rökstyðja starfsemi Alþingis í einni málstofu. Það var sérstaklega tekið fram að liður í því að vanda vinnubrögð þar sem þingið mundi orðið afgreiða lagafrv. í einni málstofu væri að nefndin gæti tekið það aftur til skoðunar milli 2. og 3. umr. ef einhverjar ástæður væru til. Ég bendi forustu þingsins og formönnum þingnefnda sem hafa ekki áttað sig á þessu að lesa í gegnum umræðurnar á sínum tíma og hugsa þessi mál betur áður en menn fara af þvílíkum þvergirðingshætti að ganga hér fram og hafna slíkum óskum. Hver eru hin þinglegu rök fyrir því þegar engin sérstök tímanauð torveldar að þingmenn líti aftur á málið milli 2. og 3. umr.? Telja menn virkilega að það sé vönduðum vinnubrögðum til framdráttar að haga sér þannig?