Kynningarstarf Flugmálastjórnar

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 14:07:53 (6792)

2001-04-25 14:07:53# 126. lþ. 112.1 fundur 576. mál: #A kynningarstarf Flugmálastjórnar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[14:07]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Virðulegur forseti. Hv. þm. sjá það trúlega í hendi sér hver kveikjan að þessari fyrirspurn er en hana má rekja til baráttunnar um Reykjavíkurflugvöll sem ég leyfi mér að kalla svo sem upphófst í upphafi þessa árs þegar ljóst var að borgaryfirvöld hygðust efna til atkvæðagreiðslu meðal borgarbúa um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar með tilliti til mögulegrar annarrar notkunar svæðisins í Vatnsmýrinni. Flugmálastjórn tók þátt í því máli á mjög afgerandi og áberandi hátt og hún tók afdráttarlausa afstöðu í málinu. Hún auglýsti í janúar, ef ég man rétt, eftir starfsmanni til að gegna stöðu kynningarstjóra stofnunarinnar, sem ég gagnrýni alls ekki og vil að það komi skýrt fram, því það er að sjálfsögðu hið eðlilegasta mál að opinberar stofnanir hafi starfsmenn sem sinna kynningarmálum sérstaklega.

Hitt ber að skoða í hvaða tilgangi og hvernig opinberar stofnanir nýta opinbera fjármuni til kynningarstarfs. Í aðdraganda þessara umdeildu kosninga var gefin út í nafni Flugmálastjórnar litprentaður bæklingur sem borinn var í hús á Reykjavíkursvæðinu. Sú útgáfa var strax mjög umdeild og vakti upp umræðu um aðstöðumun aðila til að hafa áhrif á opinberar ákvarðanir. Af þeirri gagnrýni er þessi fyrirspurn mín sprottin og í því sambandi vil ég minna á þáltill. sem hæstv. utanrrh. talaði fyrir úr þessum stól fyrir fáeinum dögum, um fullgildingu Árósasamningsins um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum.

Kosning borgaryfirvalda um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar og öll sú umræða sem henni fylgdi verður að skoðast sem umhverfismál. Þar átti því hugmyndafræði sú sem liggur að baki Árósasamningnum fyllilega við og samkvæmt þeim reglum eða þeirri hugmyndafræði sem liggur að baki Árósasamningnum þá er eitt af því sem stjórnvöld verða að athuga að þau geta ekki notfært sér aðstöðu sína í áróðursskyni gagnvart almenningi svo afar mikilvægt er að það sé skoðað hvernig stórar opinberar stofnanir beita sér í málum af þessu tagi. Fyrirspurnin sem ég legg fyrir hæstv. samgrh. er í tveimur liðum:

1. Hver var heildarkostnaður við kynningarstarf á vegum Flugmálastjórnar árlega sl. fimm ár?

2. Hversu miklu fé hefur Flugmálastjórn varið í kynningarstarf og upplýsingamiðlun fyrir atkvæðagreiðslu meðal Reykvíkinga um framtíðarnýtingu Vatnsmýrar í Reykjavík?

Í því sambandi má kannski líka spyrja hvort Flugmálastjórn hafi haft það á fjárhagsáætlun sinni fyrir árið í ár að ráða sér kynningarstjóra.