Kynningarstarf Flugmálastjórnar

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 14:15:57 (6794)

2001-04-25 14:15:57# 126. lþ. 112.1 fundur 576. mál: #A kynningarstarf Flugmálastjórnar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., HBl
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[14:15]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Meðan ég var samgrh. lá það ljóst fyrir að ekki voru uppi hugmyndir í þeim samtölum sem ég átti við borgarstjóra þá um að slá því þegar í stað föstu að Reykjavíkurflugvöllur yrði lagður niður. Mér kom því satt að segja á óvart eftir að ég hætti sem samgrh. að borgarstjóri hafði alið þær hugmyndir með sér sem mér þykja satt að segja ekki vera þess eðlis að veki traust þjóðarinnar í heild á því starfi sem borgarstjóri gegnir, því að auðvitað á borgarstjórinn í Reykjavík að vinna í þeim anda að það sé í góðu samstarfi og sátt við landið í heild ef hann hefur til þess þroska og bakstuðning.

Ég vil taka fram að það kemur mér ekki á óvart að hv. þm. skuli leggja fram frv. í þeim anda sem hér liggur fyrir (KolH: Þetta er fyrirspurn.) fyrirspurn sem ómögulega er hægt að skilja öðruvísi en svo að hv. þm. sé þeirrar skoðunar að leggja beri Reykjavíkurflugvöll niður sem ég er auðvitað ekki sammála.