Öryggi vegfarenda á Norðfjarðarvegi

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 14:28:44 (6801)

2001-04-25 14:28:44# 126. lþ. 112.2 fundur 661. mál: #A öryggi vegfarenda á Norðfjarðarvegi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[14:28]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Spurt er til hvaða aðgerða ráðherra hyggist grípa, í samráði við Vegagerðina, til að auka öryggi vegfarenda á Norðfjarðarvegi í fyrsta lagi gagnvart snjóflóðum, í öðru lagi með vegriðum og í þriðja lagi með jarðgöngum.

Fyrst vil ég svara spurningunni hvað varðar snjóflóð, m.a. á Oddsdal úr Hátúni og úr Grænafelli innarlega í Reyðarfirði. Snjóflóð sem fallið hafa á þjóðvegi á Austurlandi hafa verið skráð frá árinu 1978 og er þannig komin rúmlega 20 ára reynsla varðandi snjóflóð eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda.

Af snjóflóðastöðum á Norðfjarðarvegi sker Grænafellið sig úr, bæði að því er varðar tíðni og afmörkun snjóflóðasvæðis. Þar er einnig töluverð hætta á grjóthruni. Þessi staður hefur verið metinn hættulegastur á Norðfjarðarvegi hvað þessi atriði varðar.

Í fyrrasumar var grafin geil inn í hlíðina sem taka á við smærri snjóflóðum, svo og að minnka líkur á að stærri flóð fari yfir vegi og að grjót hrynji inn á hann. Reynslan í vetur sýnir að þessi aðgerð kemur að nokkru gagni. Til að ná betri árangri þarf þó að stækka geilina frekar og verður hugað að því. Hér er um tiltölulega ódýra lausn að ræða sem leysir vandann að hluta. Reynslan mun skera úr um hve lengi lausnin getur dugað.

Til lengri framtíðar litið getur þurft að grípa til dýrari lausna þarna en þær eru ekki á dagskrá að svo komnu máli. Þá eru ekki heldur áform uppi nú um sérstakar aðgerðir gagnvart snjóflóðum á öðrum stöðum á Norðfjarðarvegi, enda gefur tíðni snjóflóða og afmörkun þeirra ekki tilefni til þess.

Í annan stað var spurt um aðgerðir með vegriðum og svar mitt við þeirri spurningu er að vegrið hafa verið sett á neðri vegkanta á nokkrum hættulegum köflum, svo sem í skriðum á Fagradal og í beygju ofan byggðar á Eskifirði. Þau hafa aukið öryggi vegfarenda á þessum stöðum. Til greina kemur að bæta nokkuð við vegriðin. Ókostur er að þau safna að sér snjó og valda þar með umferðinni erfiðleikum og þyngja snjómokstur.

Í þriðja lagi er síðan spurt um jarðgöng og svar mitt er að í þáltill. um jarðgangaáætlun sem samþykkt var á Alþingi vorið 2000 voru tiltekin þau jarðgangaverkefni sem byrja skal á, þ.e. göng milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar og göng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Undirbúningur við þessi verkefni hefur miðast við það að framkvæmdir geti hafist á næsta ári eins og áætlunin gerir ráð fyrir. Í jarðgangaáætlun eru jafnframt fjárveitingar, 50 millj. á ári, frá og með árinu 2002 til að undirbúa næstu verkefni.

Í áætluninni eru talin upp þrjú verkefni sem sérstaklega skuli rannsökuð og eru ný göng milli Eskifjarðar og Norðfjarðar eitt af þeim verkefnum. Þessar rannsóknir munu því hefjast á næsta ári. Niðurstöður þeirra þurfa að liggja fyrir áður en frekari ákvarðanir um jarðgöng verða teknar.