Öryggi vegfarenda á Norðfjarðarvegi

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 14:33:55 (6803)

2001-04-25 14:33:55# 126. lþ. 112.2 fundur 661. mál: #A öryggi vegfarenda á Norðfjarðarvegi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[14:33]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Forvarnir og snjóflóðavarnir kosta alltaf peninga. Það verður auðvitað að meta hættuna á hverjum tíma og á hverjum stað. Því er mikilvægt að halda skrá yfir tíðni snjóflóða svo huga megi að þeim vegarköflum og svæðum sem hættulegust eru.

Grænafellið er, eins og ég sagði áðan, með hættulegustu svæðum á landinu með tilliti til snjóflóða og þar er mikið grjóthrun. Ég vil beina því til hæstv. samgrh. að skoða gaumgæfilega hvort ekki eigi að huga að yfirbyggingu þarna, enda ekki nema um 200--300 metra langur kafli sem er hvað verstur. Það eitt gæti skapað nokkurt öryggi. Eins væri hægt að skoða möguleika á að færa veginn aðeins til. Geilin sem gerð var í gilið hjá Hrafnakömbum hefur dugað nokkuð vel í vetur og það á að dýpka hana en þó ber að geta þess að óvenju snjólétt hefur verið í vetur. Veturinn hefur ekki verið dæmigerður hvað snjóþyngsli varðar.

Mér er auðvitað kunnugt um göngin og jarðgangaáætlunina. Eins og ég sagði eru jarðgöng það eina sem bætt getur öryggi vegfarenda um Oddsskarð. Ég ætla að vona að Oddsskarðsgöngin komi innan fárra ára. En ég ætla að taka undir orð hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar varðandi tilkynningar um hættu á snjóflóðum. Það er eitt af mörgu sem þyrfti að bæta að gefa út frekari viðvaranir og hafa þær ábyggilegar.

Eitt að lokum, herra forseti, varðandi vegrið. Það er erfiðara að moka þar sem þau eru en ef það er slysahætta af bröttum brekkum og beygjum þá verður að taka tillit til þess við snjómoksturinn.