Uppgjörsaðferðir fjármálafyrirtækja

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 14:38:43 (6805)

2001-04-25 14:38:43# 126. lþ. 112.3 fundur 577. mál: #A uppgjörsaðferðir fjármálafyrirtækja# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[14:38]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að beina svohljóðandi fyrirspurn til hæstv. viðskrh.:

1. Er mat á markaðsverðbréfum, hlutabréfum og skuldabréfum, með sama hætti í ársreikningum fjármálafyrirtækja, þar með talið lífeyrissjóða, fyrir árið 2000 og það var í ársreikningum ársins 1999?

2. Er beitt samræmdum uppgjörsaðferðum vegna markaðsverðbréfa í ársreikningum einstakra fjármálafyrirtækja?

3. Er ástæða til þess að samræma uppgjörsreglur fjármálafyrirtækja að þessu leyti?

Tilefni þessarar fyrirspurnar er m.a. ræða formanns bankaráðs Íslandsbanka-FBA, Kristjáns Ragnarssonar, á aðalfundi bankans í mars. Hann vakti þar athygli á að samkvæmt uppgjöri Íslandsbanka væru markaðsbréf bankans gerð upp á svokölluðu markaðsgengi. Því sé hins vegar öðruvísi farið um tvo aðra banka, þ.e. Búnaðarbankann og Landsbankann sem beiti annars konar uppgjörsaðferðum. Hann vakti athygli á því að ef sams konar uppgjörsaðferðir hefðu verið viðhafðar varðandi Búnaðarbankann og giltu hjá Íslandsbanka-FBA þá hefði hagnaður Búnaðarbankans ekki verið 202 millj. kr. heldur 14 millj. kr. Munurinn er þarna heilmikill eins og við sjáum.

Sama væri að segja um Landsbankann. Hefði ársreikningur bankans verið settur fram með sama hætti og hjá Íslandsbanka þá væri hagnaður Landsbankans á síðasta ári 355 millj. kr. en ekki 955 millj. kr. Ég ætla mér ekki þá dul að leggja dóm á hvor aðferðin sé skynsamlegri eða eðlilegri. Aðalatriðið er að hér sé um að ræða samræmingu þannig að þeir sem eru að velta fyrir sér þessum tölum geti með aðgengilegu móti áttað sig á því hver sé raunveruleg niðurstöðutala úr ársreikningunum.

Hér er ekki aðeins um að ræða almenna upplýsingagjöf heldur ekki síður að í ýmsum tilvikum er um að ræða fjárfestingarkost hjá almenningi, ekki síður en fagfjárfestum, sem leggur sparnað sinn undir og tekur ákvarðanir sínar um varðveislu sparifjársins á grundvelli upplýsinga úr ársreikningum. Þess vegna skiptir miklu máli að fólki sé nákvæmlega ljóst hver afkoma einstakra fjármálastofnana er, hvort sem þar er um að ræða lífeyrissjóði, banka eða aðrar fjármálastofnanir. Það er mikið í húfi og þess vegna hef ég, virðulegi forseti, leyft mér að leggja þessar spurningar fyrir hæstv. viðskrh.