Uppgjörsaðferðir fjármálafyrirtækja

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 14:41:55 (6806)

2001-04-25 14:41:55# 126. lþ. 112.3 fundur 577. mál: #A uppgjörsaðferðir fjármálafyrirtækja# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[14:41]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil taka það fram í upphafi að það var leitað til Fjármálaeftirlitsins til að fá svör við fyrirspurn hv. þm.

Í fyrsta lagi er spurt hvort mat á markaðsverðbréfum hafi verið með sama hætti í ársreikningum fjármálafyrirtækjanna 1999 og 2000.

Sömu reglur giltu um mat á markaðsverðbréfum bæði árin sem spurt er um fyrir einstakar tegundir fjármálafyrirtækja. Ákvæði um mat á markaðsverðbréfum fjármálafyrirtækja er að finna í eftirfarandi reglum: reglugerð nr. 554/1994, með síðari breytingum, um gerð ársreiknings viðskiptabanka sparisjóða og annarra lánastofnana; reglugerð nr. 612/1996, um ársreikninga og samstæðureikninga líftryggingafélaga; reglugerð nr. 613/1996, um ársreikninga og samstæðureikninga vátryggingafélaga annarra en líftryggingafélaga; reglugerð nr. 55/2000, um ársreikninga lífeyrissjóða og síðan reglur nr. 19/1998, um ársreikninga fyrirtækja í verðbréfaþjónustu.

Allar umræddar reglur eru byggðar á erlendum fyrirmyndum, einkum evrópskum og teljast vera innan ramma viðeigandi tilskipana sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Sérstakar tilskipanir gilda þó ekki um gerð ársreiknings fyrirtækja í verðbréfaþjónustu og lífeyrissjóða.

Í öðru lagi er spurt hvort samræmdum uppgjörsaðferðum sé beitt vegna markaðsverðbréfa í ársreikningum einstakra fjármálafyrirtækja.

Matsákvæði varðandi markaðsverðbréf eru mismunandi á milli einstakra tegunda fjármálafyrirtækja en fylgja þeim reglum sem áður voru nefndar. Enn fremur eru ákvæði um mat á verðbréfum mismunandi eftir því hvort þau eru flokkuð sem veltuverðbréf, þ.e. verðbréf sem ekki eru ætluð til varanlegrar eignar, eða ekki. Af því leiðir að mat á verðbréfum hjá sama fjármálafyrirtækinu getur breyst milli ára ef breyting verður á flokkun verðbréfa.

Sama á við milli fjármálafyrirtækja sem lúta sömu reikningsskilareglum og flokka verðbréf með mismunandi hætti. Í skýringum ársreiknings á hins vegar að gera nánari grein fyrir reikningsskilaaðferðum og upplýsa t.d. um markaðsverð verðbréfa sem færð eru á kostnaðarverði enda sé það fyrirliggjandi. Mismunandi matsaðferðir samkvæmt framansögðu leiða til mismunandi niðurstöðu í rekstrar- og efnahagsreikningum sem geta torveldað samanburð milli fyrirtækja í sömu grein.

Að síðustu er spurt hvort ástæða sé til að samræma uppgjörsreglur fjármálafyrirtækja að þessu leyti.

Af hálfu Fjármálaeftirlitsins var fyrir nokkru síðan ákveðið að huga að meiri samræmingu á matsákvæðum í hinum mismunandi reglum sem gilda um reikningsskil fjármálafyrirtækja en nokkurt svigrúm er fyrir hendi innan núverandi tilskipana á þessu sviði. Í því sambandi verður einkum litið til fyrirmynda í stöðlum frá alþjóðareikningsskilanefndinni. Þróunin á Evrópuvettvangi er sú að stefna að því að færa reikningsskilareglur í átt til þeirra staðla sem settir hafa verið af reikningsskilanefndinni. Sé tekið mið af staðli nr. 39, sem fjallar m.a. um mat á verðbréfum, yrðu markaðsbréf í aðalatriðum flokkuð í eftirfarandi þrjá flokka:

1. Virk markaðsverðbréf sem skráð yrðu á markaðsverði og matsbreyting færi um rekstrarreikning.

2. Önnur markaðsverðbréf sem einnig yrðu skráð á markaðsverði en matsbreyting, hvort sem hún er óinnleystar tekjur eða óinnleyst tap, færist á sérstakan eiginfjárreikning. Að auki yrði að gera grein fyrir heildarafkomu í reikningsskilum sem tæki þá til innleystrar afkomu samkvæmt rekstrarreikningi og breytingar á óinnleystri afkomu sem fór um eigið fé.

3. Skuldabréf sem fyrirtæki ætla að eiga út eignarhaldstímann en þau eru skráð miðað við upphaflega ávöxtunarkröfu.

Nánar þyrfti að kveða á um í reglum hvernig verðbréfin yrðu flokkuð og hvernig skuli fara með tilfærslu á milli flokka.