Auðlindagjald af vatnsafli í þjóðlendum

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 14:55:33 (6811)

2001-04-25 14:55:33# 126. lþ. 112.4 fundur 593. mál: #A auðlindagjald af vatnsafli í þjóðlendum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[14:55]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil a.m.k. þakka hæstv. ráðherra fyrir að útiloka ekki að farin verði sú leið að taka upp auðlindagjald fyrir leyfi til að nýta auðlindir af þessu tagi.

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að fara þá leið í ríkari mæli. Við eigum að taka upp auðlindagjald í sjávarútvegi, fyrir orkulindir eins og þessar og líka fyrir fjarskiptarásir, og ég er þeirrar skoðunar að við eigum að nota gjaldið sem fæst með þessum hætti til þess að lækka aðra skattheimtu af hálfu ríkisins, t.d. til þess að lækka til lengri tíma litið tekjuskatta einstaklinga, líka til þess að lækka tekjuskatta á lítil og meðalstór fyrirtæki.

Herra forseti. Ég tek eftir því að talsvert er rætt um það núna að lækka tekjuskatta almennt á fyrirtæki af hálfu stjórnarliða. Ég held hins vegar að tími sé kominn til þess að reifa möguleikana á því að lækka tekjuskatta einstaklinga og Samfylkingin sér með þessari leið ákveðna möguleika á því að verða ríkinu úti um tekjur sem geta nýst til þess. Þess vegna hvet ég hæstv. ráðherra til þess að kanna þetta mál í framtíðinni.