Námsstyrkir

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 15:01:37 (6814)

2001-04-25 15:01:37# 126. lþ. 112.5 fundur 583. mál: #A námsstyrkir# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[15:01]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Styrkir til framhaldsskólanema sem ekki eiga þess kost að sækja nám í heimabyggð sinni eru ákaflega mikilvægt tæki til að jafna eða draga úr, er kannski réttara sagt, þeim mikla aðstöðumun sem óumdeilanlega er fyrir hendi milli þeirra fjölskyldna eða námsmanna sem sótt geta slíkt nám heiman að frá sér annars vegar og hins vegar þeirra sem þurfa að sækja það um langan veg eða dvelja langdvölum fjarri heimili sínu í heimavist eða annars staðar. Nokkuð hefur áunnist á síðustu árum að þoka þessum styrkjum upp á við og ber að sjálfsögðu að þakka það, enda óumdeilt að aðstöðumunurinn þarna er gífurlegur og hefur verið lauslega metið að ekki sé ólíklegt að kostnaðarauki þeirra fjölskyldna sem þurfa að senda framhaldsskólanema til langdvala í fjarlægum byggðarlögum, sé af stærðargráðunni 350--500 þús. kr. fyrir hvern nemanda.

Námsstyrkjakerfið var ákaflega einfalt í framkvæmd meðan framhaldsskólarnir sem fullnægðu skilyrðum til að teljast á því námsstigi voru sárafáir, tveir og síðan kannski fimm, sex um langt árabil. En nú er öðru að heilsa. Nú skipta slíkir skólar tugum sem að einhverju eða öllu leyti fullnægja viðkomandi skilyrðum og aðstæður eru um margt breyttar. Þetta að sjálfsögðu kallar á ýmis álitamál sem upp koma varðandi það hverjir skuli njóta slíkra styrkja og hverjir ekki og hvernig þeim skuli fyrir komið.

Þar koma upp álitamál eins og þau hvað skuli teljast í þessum skilningi sambærilegt nám. Það koma upp skilgreiningar sem varða vegalengdir, eins og til að mynda 30 km regla sem er í gildandi reglugerð og getur leitt til þess að framhaldsskólanemi sem sækir nám 31 km frá heimili sínu fær styrki, en annar sem býr í 29 km fjarlægð, þó að um fjallveg sé að fara, gerir það ekki. Í þriðja lagi hafa reglur sem lúta að tilhögun aksturs oft valdið ágreiningi.

Það eru sem sagt ýmis grá svæði í þessu, herra forseti, sem út af fyrir sig má eðlilegt telja og alltaf hljóta að verða, en þau kalla á að fyrir hendi sé sveigjanleiki og möguleikar á að túlka þessar reglur þannig að styrkirnir nái til þeirra sem raunverulega þurfa á þeim að halda og þeir eiga að hjálpa.

Ég hef því leyft mér í þessu sambandi að spyrja hæstv. ráðherra nokkurra spurninga:

1. Í hversu mörgum tilfellum bárust athugasemdir við afgreiðslu námsstyrkjanefndar á umsóknum framhaldsskólanema um námsstyrki fyrir skólaárið 2000--2001?

2. Hversu mörgum úrskurðum um námsstyrki var breytt vegna athugasemda sem bárust námsstyrkjanefnd?

Svör við þessum spurningum ættu að færa okkur heim sanninn um hversu mörg jaðartilvik koma upp í starfi námsstyrkjanefndarinnar.

3. Telur ráðherra ástæðu til að endurskoða reglugerð nr. 746/2000, um jöfnun námskostnaðar?