Námsstyrkir

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 15:13:52 (6819)

2001-04-25 15:13:52# 126. lþ. 112.5 fundur 583. mál: #A námsstyrkir# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., EMS
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[15:13]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Það er ljóst að með þeim skrefum sem stigin voru með breytingum á reglugerð og því að færa afgreiðslu þessara mála yfir til Lánasjóðs íslenskra námsmanna úr menntmrn., þá hafa verið stigin heillaspor í þá átt að jafna þennan kostnað.

Hins vegar er ljóst að fullkomnum jöfnuði er ekki náð. Það hljóta mjög margir þingmenn að hafa orðið varir við ýmiss konar óánægju. Þess vegna er mjög mikilvægt að taka undir og hvetja hæstv. menntmrh. til þess að mjög verði vandað til endurskoðunar á reglugerðinni.

Það er náttúrlega ekki hægt að ætlast til þess að í fyrsta skrefi nái menn fullominni reglugerð. Þess vegna er það fagnaðarefni að hæstv. menntmrh. tilkynnir hér að það hafi ætíð verið ætlunin að fara yfir málið. Fara vel yfir þau mál sem hafa lent á jaðrinum. Það er augljóst að þau eru nokkur. Og þess vegna verður auðvitað að vanda til endurskoðunarinnar og vonast til þess að menn nái að stíga skref til þess að ná fullkomnum jöfnuði, þó að honum verði trúlega seint náð algjörlega.