Uppbygging tæknináms á háskólastigi

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 15:19:26 (6822)

2001-04-25 15:19:26# 126. lþ. 112.6 fundur 595. mál: #A uppbygging tæknináms á háskólastigi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[15:19]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Tækniskóli Íslands hefur verið í ákveðinni biðstöðu á undanförnum árum. Sá vilji hæstv. menntmrh. að koma skólanum í hendur einkaaðila hefur legið fyrir og vitað var um viðræður ráðuneytisins við undirbúningsfélag um stofnun og rekstur tækniháskóla, m.a. á grunni Tækniskólans.

Það hefur síðan komið fram að viðræðuslit hafa orðið við undirbúningsfélagið og í frétt á síðu Samtaka iðnaðarins, sem var einn að aðilunum að undirbúningsfélaginu, kom fram að ekki hafi tekist að finna sameiginlegan grundvöll varðandi fjármögnun sem báðir aðilar gætu sætt sig við. Í frétt Morgunblaðsins frá 25. síðasta mánaðar sagði jafnframt að ráðherra hefði farið á fjörurnar við Háskólann í Reykjavík um að koma að rekstri tækniskólans en háskólinn ekki verið reiðubúinn að koma að rekstrinum að svo stöddu.

Herra forseti. Það hefur komið fram að reiknilíkan fyrir háskóla, sem gerir ráð fyrir að 30 séu í námshópi, geri það að verkum að sérhæft nám sem fáir fara í á hverju ári sé að verða til vandræða í kerfinu. Þessi regla kann á næstu árum að stýra framboði í háskólanám í þann farveg að flestir skólarnir keppist við að bjóða upp á vinsælt nám, þ.e. nám sem býður upp á nægjanlega mikinn fjölda nemenda, en fáir eða engir verði til að bjóða upp á nám sem færri kjósa, enda standi slíkt nám engan veginn undir sér. Hins vegar er jafnljóst að atvinnulífið þarf áfram á sérhæfðu tæknimenntuðu fólki að halda og kannski hefur þörfin fyrir það aldrei verið brýnni en í dag.

Getur það verið að vegna þess að Tækniskólinn hefur menntað ýmsa sérhæfða hópa þar sem fjöldinn hefur m.a. ráðist af fjölda þjálfunarplássa úti í atvinnulífinu þá sé sá skóli, eða öllu heldur það mikilvæga nám sem hann hefur boðið upp á, að verða hornreka í menntakerfinu og þá vegna reiknilíkansins?

Í ljósi þessa, herra forseti, spyr ég hæstv. menntmrh.:

1. Hvað olli viðræðuslitum milli ráðuneytisins og þeirra aðila sem sóttust eftir því að koma að uppbyggingu tækniháskóla á grunni Tækniskóla Íslands? Þá er ég að vísa til undirbúningsfélagsins.

2. Hvaða hugmyndir eru nú uppi um að efla tækninám á háskólastigi?

Ég ítreka það sem ég sagði áðan, að líklega er mikilvægi þess meira nú en nokkru sinni fyrr.