Uppbygging tæknináms á háskólastigi

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 15:28:39 (6825)

2001-04-25 15:28:39# 126. lþ. 112.6 fundur 595. mál: #A uppbygging tæknináms á háskólastigi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[15:28]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hér hafa komið fram.

Í fyrsta lagi vil ég þó vísa því frá að ég sé að einfalda málin með því að taka reiknilíkanið til umræðu. Svo mikið hef ég heyrt frá þeim sem við það vinna að ég þykist vita að það sem ég setti hér fram um að það gæti stýrt háskólanámi eða vexti þess og viðgangi á næstunni er byggt á þeim veruleika sem menn búa við. Það er full ástæða til þess að ræða um það þótt ekki sé endilega undir þessum lið.

Mér finnst, eins og hér hefur komið fram hjá hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni, mjög mikilvægt að komist niðurstaða í þetta mál hið fyrsta. Það er mikilvægt að við byggjum hér upp tækniháskóla og skólakerfið fái svarað þeim kröfum atvinnulífsins sem fyrir liggja um tæknimenntað fólk á ýmsum sviðum. Tækniskólinn hefur staðið sig mjög vel, ekki síst ef horft er til þeirra aðstæðna sem honum hafa verið sniðnar. Ég held að það sé mikilvægt að tekin verði um það formleg ákvörðun hið fyrsta hvert skuli stefnt.

Mér heyrist ráðherrann tefla því hvoru gegn öðru að um geti verið að ræða ríkisháskóla sem síðan eigi samvinnu við atvinnulífið. Þetta er auðvitað mikill misskilningur vegna þess að ríkisháskóli getur engu síður en einkaskóli átt ágætt samstarf við atvinnulífið um uppbyggingu starfsnáms. Fyrir því eru fordæmi. Þess vegna er í sjálfu sér ekkert sem mælir gegn því að við förum af stað með ríkisháskóla, að Tækniháskóli Íslands verði ríkisháskóli byggður á þeim grunni sem Tækniskólinn hefur byggst upp á, og jafnframt sé haft samstarf við aðila í atvinnulífinu. Mér sýnist að þetta geti mjög vel gengið saman og hljóti að verða niðurstaðan ef hæstv. ráðherra nær ekki samkomulagi hið fyrsta við þá aðila sem horfa á þetta sem spennandi verkefni og eru annars staðar en í ríkiskerfinu.