Fjöldi nemenda í framhaldsskólum

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 15:42:13 (6831)

2001-04-25 15:42:13# 126. lþ. 112.7 fundur 607. mál: #A fjöldi nemenda í framhaldsskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., JB
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[15:42]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég held að það hljóti að vera um einhvern misskilning að ræða að 92% af nemdendum ljúki framhaldsskólaprófi, það sé einhver mislestur hafi ég heyrt orð hæstv. ráðherra rétt.

Samkvæmt þeim athugunum sem Jón Torfi Jónasson og Kristjana Stella Blöndal gerðu á árgangi fæddum 1975 höfðu tæp 43% af þeim árgangi árið 1999 ekki lokið prófi úr framhaldsskóla, hvorki verklegu prófi né prófum af bóknámsbrautum. 46,2% hafa lokið stúdentsprófi og 11% prófi úr verkgreinum.

Ég hygg að þetta sé nokkuð nærri því meðaltali sem er síðan almennt fyrir þessa árganga um þessar mundir. Um 5--12% nemenda innritast ekki í framhaldsskóla á þessu aldursskeiði. Hér er því um grjótalvarlegt mál að ræða. Ljóst er að menntakerfið, sérstaklega menntakerfið sem lýtur að verknámi og verktengdum greinum, fylgist alls ekki með í tímanum og það lætur stöðugt undan í þeirri skipan menntamála sem við búum við og það verður að leiðrétta.