Fjöldi nemenda í framhaldsskólum

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 15:46:19 (6834)

2001-04-25 15:46:19# 126. lþ. 112.7 fundur 607. mál: #A fjöldi nemenda í framhaldsskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[15:46]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi þakka hæstv. menntmrh. fyrir ítarleg og góð svör við þessum fyrirspurnum mínum og jafnframt öðrum þingmönnum sem hér hafa tekið til máls undir þessum lið.

Það kom fram sem bjó innra með mér að þessi munur milli bóknáms og starfsnáms er gríðarlega mikill hér miðað við hin Norðurlöndin og setur vissan ugg að brjósti vegna þessa. Það má líka sjá að mikil vöntun er á faglærðu fólki í iðnaði á Íslandi sem þarf auðvitað að taka á.

Það er kannski rétt sem hér hefur verið komið inn á af nokkrum ræðumönnum að auðvitað þarf að huga fyrr og betur að þessu --- og þetta á jafnt við um bæði kynin --- í hinum yngri bekkjum hvernig megi koma á starfsnámi fyrir áður en kemur að því að hið unga fólk fer í framhaldsskólana.

Ég þakka enn og aftur fyrir þessar athyglisverðu tölur og vonast til þess að einhvern tímann er fram líða stundir gefist tími á hinu háa Alþingi til þess að ígrunda þessi mál, þá væntanlega að fengnum enn frekari upplýsingum frá hæstv. menntmrh. um hvernig störfum líður þar á bæ í menntmrn. varðandi verkmenntanámið.