Fjöldi nemenda í framhaldsskólum

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 15:47:54 (6835)

2001-04-25 15:47:54# 126. lþ. 112.7 fundur 607. mál: #A fjöldi nemenda í framhaldsskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[15:47]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég tel að það gefist oft tækifæri til að ræða þessi mál á Alþingi ef þingmenn kjósa. Ég hef t.d. lagt fram skýrslur á þinginu bæði um grunnskóla og einnig um framhaldsskóla með mjög ítarlegum upplýsingum um þessi skólastig. En ég hef ekki orðið var við nokkurn áhuga hjá þingmönnum að taka þær skýrslur til umræðu eins og ýmsar aðrar skýrslur þannig að menn geti farið hér í almennar umræður um þróun skólastiganna. Það hefur ekki verið tími til þess á dagskrá þingsins að fá slíkar umræður þegar þessar ítarlegu skýrslur hafa verið lagðar fram. Þess vegna finnst mér gott að hv. þm. hreyfir þessu máli þannig að mönnum gefist þá tækifæri í stuttu máli að koma sjónarmiðum á framfæri.

Eins og hv. þm. Einar Már Sigurðarson nefndi er nauðsynlegt að ná til grunnskólanemendanna betur en gert hefur verið. Við höfum t.d. núna gefið út bæklinginn ,,Nám að loknum grunnskóla`` með nýjum hætti og dreift honum í 9. og 10. bekk grunnskólans í fyrsta sinn. Þar er farið mjög ítarlega yfir starfsnámið og kynnt það sem við höfum líka unnið að, þ.e. að kynna nemendum að þótt þeir fari í starfsnám þá eru þeir ekki að loka dyrunum fyrir því að geta farið í háskólanám eða taka stúdentspróf. Þar skilgreinum við líka þær einingar sem nemendur þurfa að bæta við að loknu starfsnámi til þess að taka þetta stúdentspróf þannig að þetta held ég að sé lykilatriði að kynna nemendum sem fyrst.

Við höfum fengið mjög góð viðbrögð við þessum bæklingi núna og því að hann hafi verið sendur svona víða. Að vísu hefði hann mátt koma út fyrr. Það er eins og verkast vill. En hann liggur fyrir og verður mun ítarlegra og betra gagn fyrir nemendur því námsráðgjöf og áhugavekjandi umræður í grunnskólanum um þá möguleika sem starfsnámið veitir held ég að sé besta leiðin til þess að beina nemendum inn á þessar brautir.