Virðisaukaskattur af hugbúnaðarvinnu

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 15:50:28 (6836)

2001-04-25 15:50:28# 126. lþ. 112.8 fundur 594. mál: #A virðisaukaskattur af hugbúnaðarvinnu# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[15:50]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Undanfarið hefur farið fram nokkur umræða um umbætur og breytingar á skattkerfi okkar og hefur þar mest borið á áherslum ríkisstjórnarinnar um lækkun á tekjuskattsprósentu fyrirtækja. Einnig hafa eignarskattar og úreltir skattar eins og stimpilgjöld verið nefnd sem nokkuð sem okkur bæri að hreinsa út úr skattkerfinu. Og næg eru verkefnin ef vilji er til að laga til.

Tillögur OECD um endurskoðun íslenska skattkerfisins eru allrar athygli verðar, ekki síst sú áhersla sem þeir leggja á auðlindagjöld til að leysa skatta af hólmi eða lækka þá.

Það er sjálfsagt að auðlindagjöld og umhverfisgjöld ýmiss konar, stundum kölluð grænir skattar, verði skoðuð af fullri alvöru sem tekjuöflunarleið hins opinbera.

Herra forseti. Virðisaukaskattur hefur ekki mikið verið nefndur í þessari umræðu undanfarið en er þó sífellt bitbein, ekki síst hvað nýtur undanþágu og hvað ekki. Þegar virðisaukaskattur var tekinn upp á sínum tíma varð nokkur umræða um það hvernig fara skyldi með skatt af vinnu tæknimanna ýmiss konar sem unnu inni á deildum skattlausra stofnana og fyrirtækja og áttu í vissum skilningi í samkeppni við fyrirtæki á sumum sviðum á markaðnum. Þessi skattlausu fyrirtæki geta ekki nýtt sér innskattinn svokallaða og þess vegna verður sá virðisaukaskattur sem þau greiða að fullum kostnaði hjá viðkomandi fyrirtæki.

Þessi vandi er enn til staðar og lýsir sér um þessar mundir e.t.v. ekki síst í því að opinberir skattfrjálsir aðilar, tryggingafélög og lánastofnanir, byggja upp eigin deildir á sviði hugbúnaðar, í stað þess að kaupa þá þekkingu af fyrirtækjum sem eru að reyna að byggja sig upp á okkar litla markaði.

Þetta hefur nokkrar afar vondar afleiðingar, herra forseti. Fyrirtækin á markaðnum sem byggjast oft upp í kringum góðar hugmyndir frumkvöðla, fá ekki næg verkefni til að þroskast. Hér er ég fyrst og fremst að tala um hugbúnaðarfyrirtækin. Og fyrirtæki sem telja sig vera að spara skattinn, sitja e.t.v. uppi með lakari þjónustu frá sinni takmörkuðu starfsemi því auðvitað eru takmörk fyrir því hvað svona deildir geta verið stórar, þ.e. lakari þjónustu en ef þau leituðu til sérfræðinganna á markaðnum.

Þannig má ætla að þau tapi jafnvel andvirði þess skatts ef þau ekki nýta sér á hverjum tíma það sem raunverulega væri hentugast vegna þessarar stýringar skattkerfisins.

Ég hef þess vegna lagt eftirfarandi fyrirspurn fyrir hæstv. fjmrh.:

,,Hvað hefur verið gert til að jafna samkeppnisstöðu þeirra hugbúnaðarfyrirtækja, sem starfa á markaðnum og greiða virðisaukaskatt af vinnu sinni, og hinna sem byggð hafa verið upp sem deildir innan fyrirtækja sem ekki greiða virðisaukaskatt?``