Virðisaukaskattur af hugbúnaðarvinnu

Miðvikudaginn 25. apríl 2001, kl. 15:58:39 (6838)

2001-04-25 15:58:39# 126. lþ. 112.8 fundur 594. mál: #A virðisaukaskattur af hugbúnaðarvinnu# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 126. lþ.

[15:58]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þau svör sem hann hefur komið með.

Það kom skýrt fram hjá honum hver vilji löggjafans og reglugerðavaldsins er í þessu efni. Það kom jafnframt fram að það á að tryggja að aðilum sé ekki mismunað.

Eigi að síður virðist sem svo að þetta nái ekki fram að ganga, a.m.k. ekki gagnvart hugbúnaðarfyrirtækjum. Ég vil leyfa mér, herra forseti, í því sambandi að vitna til ræðu sem Vilmundur Jósefsson, sem er formaður Samtaka iðnaðarins, flutti á aðalfundi samtakanna nú ekki fyrir löngu þar sem hann hvatti til þess að markvissra lausna væri leitað á skattalegum vandamálum sem vefðust fyrir okkur ár eftir ár. Þar nefndi hann virðisauka af vinnu hugbúnaðarfyrirtækja sérstaklega, sem skattfrjálsir opinberir aðilar, og þá líka lánastofnanir og tryggingafélög, kæmu sér undan að greiða með því að byggja upp eigin deildir á þessu sviði. Hann benti á að þarna glataðist stór markaður fyrir upplýsingatæknifyrirtæki okkar og gat þess jafnframt að vandamálið hefði legið óleyst lengi á borðum og engin lausn virtist vera í sjónmáli.

Herra forseti. Það sem ég var að hafa hér eftir Vilmundi Jósefssyni er þá væntanlega í samræmi við það sem ráðherrann var með svona eins og innan sviga í sínu svari, eða hvað? Alla vega er hér sett fram fullyrðing um að þarna sé að glatast stór markaður fyrir upplýsingatæknifyrirtæki vegna þess að opinberir aðilar, lánastofnanir og tryggingafélög, komi sér undan að greiða með því að byggja upp eigin deildir á þessu sviði.