Svar við fyrirspurn

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 10:33:18 (6842)

2001-04-26 10:33:18# 126. lþ. 113.91 fundur 484#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[10:33]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil taka upp undir liðnum athugasemdir um störf þingsins það mál að þann 14. nóvember sl. lagði ég fram fyrirspurn í sex töluliðum til hæstv. samgrh. um ýmis atriði sem varða ljósleiðaravæðingu landsins og stefnumótun á því sviði. Samkvæmt þingsköpum hafa ráðherrar tíu virka daga til að svara fyrirspurnum þegar óskað er skriflegs svars. Ég skal fúslega viðurkenna að um allviðamiklar spurningar er að ræða og hefði þar af leiðandi ekki verið tilefni til mikillar gagnrýni þó að eitthvað lengri tíma hefði tekið að afla þessara upplýsinga eða skila svari. En nú þykir mér nokkuð langt gengið, herra forseti, þegar aprílmánuði er senn lokið og ekki hafa enn borist svör við þessum spurningum.

Ég tek málið einnig upp, herra forseti, vegna þeirra fráleitu frétta, vil ég kalla það, sem okkur þingmönnum voru bornar í fjölmiðlum í gærkvöldi, að til stæði að leggja hér fram einhvern tíma á næstum dögum, nokkrum virkum dögum áður en fundahöldum átti að ljúka á Alþingi, frv. til laga um einkavæðingu Landssímans.

Þær upplýsingar sem ég hef beðið um í þessari fyrirspurn eru mjög mikilvægar í sambandi við það mál, þ.e. grundvallarupplýsingar um stöðu ljósleiðaravæðingar, kostnað við að tengja afganginn af landinu og annað í þeim dúr sem eru atriði sem auðvitað hljóta að eiga að koma til skoðunar áður en menn fara að hrófla við núverandi stöðu Landssímans og eignarhaldi á honum.

Ég fer því fram á það, herra forseti, að ekki verði hreyft við því máli nær það berst á borð þingmanna fyrr en samgrn. hefur svarað spurningum mínum. Nú vill svo vel til að hér er hæstv. samgrh. sem e.t.v. getur upplýst okkur eitthvað um hvenær þess er að vænta að svörin berist. En ég tel það algjörlega óásættanlegt að slíkar upplýsingar skorti áður en við förum að ræða þetta stjfrv. Þessar upplýsingar hlýtur að hafa átt eftir að vinna úr því að svona langan tíma hefur tekið að koma með svörin því ekki trúi ég því að hið háa ráðuneyti gleymi hlutum af þessu tagi.