Svar við fyrirspurn

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 10:36:54 (6844)

2001-04-26 10:36:54# 126. lþ. 113.91 fundur 484#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[10:36]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hæstv. samgrh. biðst afsökunar á því að fyrirspurn sem lögð var fyrir hann og ráðuneyti hans 14. nóvember á síðasta ári skuli ekki hafa verið svarað. Það er vel. En ég hefði viljað afsökunarbeiðni hæstv. samgrh. fyrir því að ætla að leggja fram frv. um sölu á Landssíma Íslands sem ekki aðeins er stórpólitískt hitamál heldur hefur mikla efnahagslega þýðingu í landinu.

Nú er gert ráð fyrir því að þinghaldi ljúki hinn 18. maí nk. Nokkur tími virðist til stefnu því að við erum stödd núna þar í mannkynssögunni að merkt er við 26. dag aprílmánaðar. En samkvæmt starfsáætlun Alþingis er gert ráð fyrir nefndastarfi í næstu viku og einnig mánudaginn í vikunni þar á eftir og reiknast mér til að aðeins átta eða níu þingfundadagar séu til stefnu. Ég vil beina því til stjórnar þingsins á hvern hátt hún hyggst bregðast við þessu ábyrgðarleysi stjórnvalda, þessu ábyrgðarleysi ríkisstjórnarinnar sem sannarlega mun hafa áhrif á störf okkar hér á þinginu og raska þeirri starfsáætlun sem þegar liggur fyrir.