Svar við fyrirspurn

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 10:38:31 (6845)

2001-04-26 10:38:31# 126. lþ. 113.91 fundur 484#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[10:38]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég er mjög undrandi. Hæstv. samgrh. sagði áðan að þeirri fyrirspurn sem búin er að liggja fyrir í allan þennan tíma verði hægt að svara bara seinna í dag. Hvernig í ósköpunum stendur á því að málið er allt í einu tilbúið nú í dag um leið og spurt er eftir því? Af hverju var þetta ekki lagt fram fyrr ef þessi svör hafa verið til? Ég verð að segja það, hæstv. forseti, að mér finnst mjög ámælisvert að það skuli koma fram að menn haldi upplýsingum fyrir þingmönnum að ástæðulausu. Ég held að það sé ástæða til að álykta sem svo að það hafi verið gert úr því að þetta er allt saman tilbúið og hægt er að leggja það fram eftir nokkra stundarfjórðunga ef menn vilja. Mér finnst, hæstv. forseti, að það þurfi kannski að fara að fylgjast svolítið betur með því hvernig ráðuneytin og hæstv. ráðherrar standa sig í þessum málum ef upplýsingar sem eru tilbúnar eru bara geymdar.

Ég ætla svo að neita mér um að ræða um hið stóra mál. En auðvitað þarf Alþingi góðan tíma til þess að fjalla um það mikla mál sem hér hefur verið nefnt, söluna á Landssímanum, og þingmenn þurfa auðvitað líka tíma til að kynna sér það frv. sem kemur fram þannig að þeir geti tekið þátt í umræðum um það af einhverri skynsemi.