Svar við fyrirspurn

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 10:40:05 (6846)

2001-04-26 10:40:05# 126. lþ. 113.91 fundur 484#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[10:40]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég verð að segja það sömuleiðis að mér finnast þetta nokkuð undarlegar skýringar og aðstæður sem hér eru uppi. Svo fremi að samgrn. hafi ekki beinlínis gleymt þessari fyrirspurn, þá vakna margar spurningar um það hvers vegna upplýsingarnar voru ekki reiddar fram. Kann að vera svo að það hafi verið viðkvæmt vegna deilna milli stjórnarflokkanna og vegna þess hversu heitt allt þetta mál er að reiða fram tölulegar upplýsingar t.d. um kostnaðinn við að ljósleiðaravæða landið, tengja alla staði með fleiri íbúa en 100 t.d. við ljósleiðaranetið eða eitthvað af því tagi? Var óþægilegt fyrir ríkisstjórnina að fá þær upplýsingar fram á þingi akkúrat meðan þeir voru að þæfa þessi mál í sínum herbúðum? Það er von að maður spyrji slíkra spurninga því að þetta er mjög torkennilegt.

Ég hafna því að þessar upplýsingar liggi fyrir í skýrslum einkavæðingarnefndar enda mundi það engu breyta. Fyrirspurnum á Alþingi ber að svara engu að síður. Ég hef farið yfir þau gögn og skýrsluna og það er fjarri lagi að þar séu upplýsingar sundurliðaðar með þeim hætti sem hér er beðið um og að þær svari öllum spurningum. Þvert á móti er mjög mikilvægt að fá fram svör við því t.d. hver þessi kostnaður er, hver staðan er í dag og hvaða stefnu yfirvöld hafa hugsað sér að framfylgja í þessum efnum á komandi árum varðandi það að tryggja aðgang allra landsmanna að fullnægjandi þjónustu á þessum sviðum.

Herra forseti. Það dæmir sig síðan auðvitað algjörlega sjálft að ríkisstjórninni skuli detta í hug að sýna Alþingi þá lítilsvirðingu að ætla að fara að troða þessu máli hér inn núna. Frestur til að leggja fram ný frv. er samkvæmt venju útrunninn 1. apríl. Um er að ræða stórpólitískt mál sem stjórnarflokkarnir hafa sjálfir þurft marga mánuði til að hnoða saman. En þó á Alþingi að afgreiða þetta á færibandi á tvöföldum hraða eins og ekkert sé á örfáum dögum. Slík lítilsvirðing við þingið dæmir sig algjörlega sjálf, herra forseti, og forseti ætti auðvitað að sjá sóma sinn í því að taka slíkt mál ekki á dagskrá.