Samvinnufélög (rekstrarumgjörð)

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 10:48:02 (6848)

2001-04-26 10:48:02# 126. lþ. 113.1 fundur 448. mál: #A samvinnufélög (rekstrarumgjörð)# frv. 22/2001, Frsm. minni hluta JóhS
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[10:48]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég mæli fyrir minnihlutaáliti efh.- og viðskn. í þessu máli sem ég flyt ásamt hv. þm. Margréti Frímannsdóttur. Ég mæli fyrir álitinu í fjarveru hennar.

Þetta frv., sem verið hefur til umfjöllunar í efh.- og viðskn., er eitt þriggja frumvarpa þar sem lagðar eru til breytingar á lögum er varða rekstur samvinnufélaga.

Minni hlutinn í efh.- og viðskn. er sammála um nauðsyn þess að samvinnufélög fái heimild til að breyta rekstrarformi sínu og geti með því brugðist við breyttum rekstraraðstæðum, en telur að skoða þurfi aðrar leiðir að því markmiði en þær sem settar eru fram í frv. Enn fremur telur minni hlutinn að ekki liggi fyrir skýrar upplýsingar um mikilvæga þætti svo sem eignastöðu og eignamyndun samvinnufélaganna þannig að hægt sé að leggja mat á hvort um eðlilega og sanngjarna leið sé að ræða varðandi skiptingu eigna á milli félagsmanna. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fulltrúa Samfylkingarinnar í nefndinni hefur ekki tekist að fá yfirlit yfir heildareignir samvinnufélaga og tengdra félaga og því er ekki unnt að átta sig á hversu miklar eignir færast í hendur einstakra félagsmanna án þess að þær teljist til skattskyldra tekna.

Í athugasemdum við frv. kemur fram að stofnsjóðir samvinnufélaganna hafi rýrnað það mikið að varla sé lengur um að ræða raunverulegt eða eiginlegt eigendafjármagn í fyrirtækjunum. Aðeins brot af eigin fé félaganna sé beint tengt félagsmönnum og því skorti svokallaða ,,eigendavitund``. Árið 1996 var eigið fé kaupfélaganna um 30% af eignum, en stofnsjóður að jafnaði aðeins 3% af eignum. Til þess að auka tilfinningu félagsmanna fyrir eign sinni og ábyrgð á rekstri félaganna er í frv. veitt heimild til að færa eignir félaganna til einstaklinga án þess að þeim beri að greiða skatta af þessari búbót.

Þegar við ræddum málið við 1. umræðu gerði ég einmitt athugasemd við þetta lykilatriði í frv. sem hér er til umræðu. Ég leiddi þar fram umsögn ríkisskattstjóra frá því á síðasta þingi þegar þetta mál var til meðferðar en hlaut ekki afgreiðslu. Ríkisskattstjóri gerði þar veigamiklar athugasemdir við sérstakar skattaívilnanir sem fylgja þessu frv. og öðrum tengdum frumvörpum og við gerum athugasemd við það hér í nál.

Í umsögn ríkisskattstjóra um frumvarpið frá 125. löggjafarþingi segir m.a.:

,,Markmið frumvarpsins er að auðvelda breytingu á rekstrarumgjörð samvinnufélaga og skilgreina eignaraðildina. Gengið er út frá því að framkvæmd þeirra reglna sem settar verða hafi ekki sem slík skattalegar afleiðingar fyrir viðkomandi félög og félagsaðila. Með frumvarpinu er skattskyldu við afhendingu verðmæta milli aðila aflétt. Tekjur sem samkvæmt almennum skattareglum teldust til skattstofns hjá móttakanda verða samkvæmt því að fullu skattfrjálsar. Hvorki leggst á almennur skattur né fjármagnstekjuskattur. Afsalar ríkissjóður sér því skatttekjum með slíkum ívilnandi reglum.``

Fulltrúar Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd spurðust fyrir um það hjá ríkisskattstjóra hvort hægt væri að áætla hvað ríkissjóður afsali sér miklum skatttekjum með þeim ívilnandi reglum sem lagðar eru til í frv. Í svari ríkisskattstjóra kemur fram að engar tölulegar upplýsingar liggja fyrir hjá skattyfirvöldum nú frekar en þegar fjallað var um málið á síðasta löggjafarþingi þannig að ekki er hægt að leggja mat á þær fjárhæðir sem heimilt verður að yfirfæra hjá samvinnufélögum til séreignarsjóða félagsaðila verði frv. að lögum. Ekki liggja heldur fyrir upplýsingar um fjölda þeirra félagsmanna sem tilkall gætu átt til slíkra eignarhluta.

Í umsögn sinni frá síðasta þingi, sem er í fullu gildi hvað varðar frv. sem nú er endurflutt, vekur ríkisskattstjóri einnig athygli á því að með lögfestingu frumvarpsins sé verið að afhenda félagsaðilum endurgjaldslaust verðmæti úr samvinnufélögunum sem þeir hafa aldrei átt tilkall til samkvæmt lögum um samvinnufélög. Samkvæmt almennum reglum skattalaga sé þessi afhending tekjur sem greiða beri skatt af, þær séu að hluta til orðnar til af óskattlögðum tekjum viðkomandi félags. Auk þess að fella niður skattlagningu við afhendinguna sé búið til nýtt stofnverð í hendi eigenda sem leiði til þess að þær tekjur sem mynduðust við afhendingu koma heldur ekki til skattlagningar við sölu síðar. Ríkisskattstjóri varar einnig við því fordæmi sem frv. felur í sér verði það að lögum.

Bent hefur verið á að sú ákvörðun að úthluta verðmætum til félagsmanna án þess að það teljist til skattskyldra tekna eigi sér hliðstæðu, annars vegar í útgáfu jöfnunarhluta og hlutabréfa sem miðaðist við árslok 1996 og hins vegar heimild hlutafélaga á grundvelli laga um hlutafélög og einkahlutafélög til að gefa út og afhenda skattfrjálst jöfnunarhlutabréf eftir árið 1996. Þetta er ekki með öllu rétt því skattfrjáls útgáfa jöfnunarhlutabréfa og útreikningar á jöfnunarverðmæti takmarkast við að verðbæta hlutafé þannig að innborganir hluthafa haldi raungildi sínu. Ekki er gert ráð fyrir slíkum takmörkunum varðandi úthlutun verðmæta til félagsmanna í samvinnufélögum. Í ljósi þessa telja fulltrúar Samfylkingarinnar í nefndinni eðlilegt að leggja fram brtt. við frv., sem miðar að því að koma í veg fyrir að í væntanlegri lagasetningu felist skattaívilnanir umfram þær sem gilda um hlutafélög. Með tillögu þessari er gerð tilraun til að sníða verstu agnúana af frv.

Samvinnufélög hafa staðið fyrir fjölþættum rekstri sem vissulega hefur í áranna rás haft mikið að segja í uppbyggingu atvinnulífs, sérstaklega á landsbyggðinni. Rekstrarfyrirkomulag þeirra hefur ekki fylgt þeim breytingum sem orðið hafa á aðstæðum í atvinnulífi. Minni hlutinn tekur undir þau sjónarmið að nauðsynlegt sé að gera ráðstafanir til að auka samkeppnishæfni samvinnufélaga og auðvelda þeim að takast á við breyttar aðstæður, en telur hins vegar að nauðsynlegt hefði verið að skoða betur þær leiðir sem færar eru að þessu markmiði og getur ekki fallist á þá leið sem valin er til úthlutunar á skattfrjálsu fjármagni til félagsmanna í samvinnufélögum, ekki síst þar sem ekki liggja fyrir neinar upplýsingar um heildarupphæð þeirra fjármuna eða eigna sem um er að ræða hjá samvinnufélögunum og tengdum félögum. Til dæmis var ógerlegt að fá, á þeim tíma sem notaður var til umfjöllunar um frv. í nefndinni, upplýsingar um kvótaeign þeirra félaga sem um ræðir eða tengdra félaga.

Eitt kaupfélag er þó skráð fyrir skipi með úthlutuðum kvóta um 2.500 þorskígildistonn. Ekki liggja fyrir upplýsingar um eignaraðild samvinnufélaga að félögum sem eiga fiskiskip með aflaheimildir. Árið 1997 var eigið fé kaupfélaganna, ekki samvinnufélaganna almennt, talið vera um 7,8 milljarðar króna. Af þeim litlu upplýsingum sem fyrir liggja er ljóst að um er að ræða verulega fjármuni og eignir sem áætlað er að flytja skattfrjálst til félagsmanna. Á þá tilhögun geta fulltrúar Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd ekki fallist.

Við leggum því til eftirfarandi breytingu sem ég vil fá að lesa, með leyfi forseta:

,,Við 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða bætist nýr málsliður, sem verði 3. málsl., svohljóðandi: Hækkun endurmats takmarkast af framreiknuðum A-deildar stofnsjóði félagsins frá upphafi og breytingum á honum milli ára samkvæmt þeim reglum sem giltu um útgáfu jöfnunarhlutabréfa í árslok 1996 samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt.``