Samvinnufélög (rekstrarumgjörð)

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 11:15:32 (6851)

2001-04-26 11:15:32# 126. lþ. 113.1 fundur 448. mál: #A samvinnufélög (rekstrarumgjörð)# frv. 22/2001, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[11:15]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum nr. 22/1991, um samvinnufélög, með síðari breytingum. Ég vil koma hér upp til þess að taka undir þau varnaðarorð sem hafa fallið frá hv. 5. þm. Norðurl. v., Jóni Bjarnasyni, og hv. 13. þm. Reykv. Ögmundi Jónassyni, um breytingar á kaupfélögunum.

Við gerum okkur grein fyrir því að tíðarandinn er breyttur í samfélaginu og menn ríða á bylgju einkavæðingar og þessi ósk félaganna er e.t.v. afleiðing af tímabundnu hugarfars\-ástandi í okkar samfélagi. Ég vil vara við því. Kaupfélögin hafa verið kjölfesta. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að viðleitni kaupfélaganna til þess að fá inn aukið fjármagn í rekstur sinn með því að gefa út B-deildar skírteini hefur kannski ekki gengið eins vel eins og menn höfðu vonað og vonuðu þegar sá möguleiki var opnaður, en ég held að það megi líka skrifast á tíðarandann.

Þegar byrjað var á útgáfu slíkra skírteina var staða kaupfélaganna almennt mjög slæm og þess vegna kannski ekki fýsilegt fyrir fjárfesta eða fólk sem vildi koma peningum sínum fyrir að fara inn í B-deildir kaupfélaganna og þess vegna var minna um B-deildarskírteinaútgáfur en efni stóðu til. Ég held að við hefðum kannski átt að einbeita okkur að því sem var bráðnauðsynlegt að tryggja. Ég kom með frv. til laga upp áðan, fyrir mistök, um innlánsdeildir. Ég held að allir geri sér grein fyrir því að nauðsynlegt var að styrkja innlánsdeildirnar. Margir kaupfélagsmenn hafa farið illa út úr fjárhagserfiðleikum kaupfélaganna vegna þess að innlánsdeildirnar voru ekki nægilega tryggar. Þeir fjármunir sem kaupfélagsmenn höfðu inni í innlánsdeildum voru í vissum tilfellum í uppnámi þó ræst hafi úr eftir margra mánaða uppgjör eins og hjá Kaupfélagi Þingeyinga þegar erfiðleikarnir voru þar og það kaupfélag rúllaði. Það var því í sjálfu sér nauðsynlegt að fara í styrkingu á innlánsdeildunum og láta þær fylgja sömu lögmálum og aðrar innlánsstofnanir, hvort sem um er að ræða banka eða sparisjóði.

Ég tel að of bratt sé í farið með þessum breytingum hér. Ég held að stjórnir kaupfélaganna víða ríði á þessari bylgju einkavæðingar. Við hefðum e.t.v. átt að einbeita okkur að því að styrkja kaupfélagsformið í þeirri mynd sem það hefur verið fram að þessu. Kaupfélögin hafa um áratuga skeið haft alla möguleika á því að hasla sér völl í hlutafélagsformi. Það eru mörg dæmi um það. Útgerðarfélag Akureyringa var stofnað t.d. af kaupfélagi, bæ og einkaaðilum. Útgerðarfélag Dalvíkinga var Kaupfélag Eyfirðinga, Dalvíkurbær og einkaaðilar, þannig að það er áratuga hefð fyrir því að þátttaka kaupfélaganna var möguleg.

Aðalfundur Kaupfélags Eyfirðinga er næsta laugardag og eins og þróunin er núna miðað við ríkjandi tíðaranda þá virðist manni að í stærsta kaupfélagi landsins, eða e.t.v. næststærsta á eftir Kaupfélagi Árnesinga, séu menn komnir á þá braut að þróa félagið með þeim eignum sem þar eru innan borðs yfir í fjárfestingarfélag. Náttúrlega veit enginn hvert útfallið verður í framhaldi af því ef við lítum til lengri tíma, fimm eða tíu ára. Varnaðarorð mín eru þau, eins og fram komu í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar og hv. þm. Ögmundar Jónassonar, að við sjáum marga kosti í þessu félagsformi, kaupfélagsforminu, eins og það eru hugsað í grunninn. Þau eru byggðatengd. Þau hafa verið kjölfesta í byggðarlögunum. Ekki er gott að losa um á þennan hátt eins og virðist stefna í þó að það sé auðvitað, eins og fram hefur komið í umræðunni, ákvörðun einstakra félagsstjórna hvernig verður farið í málin. En við vitum hvernig kaupin gerast á eyrinni og ef við lítum til fimm eða tíu ára er ekkert fast í hendi með það að hafa þessi byggða- eða svæðisbundnu tengingu á eignarhaldsfélögum kaupfélaganna eins og þau eru að þróast, þ.e. að þau verði staðbundin og sú kjölfesta í heimabyggð sem þau hafa verið um áratuga skeið. Það er náttúrlega stóra áhyggjuefnið að við erum að færa þetta út í hina hörðu markaðsvæðingu og byggðirnar og fólkið sem byggði upp þessi félög á grunni þessa félagsforms eins og það var missi tökin á þessu.

En það eru ekki bara kaupfélögin sem verið er að fara í á þessum grunni. Það eru líka vangaveltur um breytt rekstrarform sparisjóðanna. Við höfum margoft lýst því yfir í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að það er okkur stórt áhyggjuefni. Sparisjóðirnir hafa verið byggðatengdir, svæðistengdir, og hafa þjónað í mörgum tilfellum heimabyggðum sínum mjög vel þar sem framkvæmdastjórnir slíkra fyrirtækja hafa að mestu leyti einbeitt sér að því að þjóna viðkomandi svæðum.

Ég vil fyrst og fremst koma þessum atriðum á framfæri. En ég geri mér grein fyrir því að sá þáttur í breytingunni á samvinnufélögum sem lýtur að innlánsdeildum er nauðsynlegur. Þar þarf í nýju ljósi að tryggja innlánsdeildirnar. Þær verða að vera sterkar og þannig þarf um hnútana að vera búið að þeir sem eru með fé sitt bundið í innlánsdeildum taki ekki meiri áhættu en fólk almennt þegar það leggur sína peninga inn í banka eða sparisjóði.

Virðulegi forseti. Að síðustu þetta. Við hefðum viljað sjá styrkingu á félagsforminu á þeim nótum sem það var hugsað. Svo virðist vera að samvinna, samrekstur og félagsrekstur sé ekki í tísku hjá þeim sem ráða ferðinni í samfélaginu í dag, þ.e. innan þingsins og úti í samfélaginu og þessi nýja hugsun er náttúrlega komin inn í stjórnir félaga eins og kaupfélaganna. En ég vil taka undir orð hv. þm. Jóns Bjarnasonar og segja að e.t.v. er þetta bóla sem lýtur lögmálum tímans eins og hann er nú. Það verður kannski uppi á teningnum að vinda ofan af og styrkja samvinnurekstur innan örfárra ára þegar menn sjá gallana á þeim kerfisbreytingum sem nú eru í farvatninu.