Samvinnufélög (innlánsdeildir)

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 11:24:44 (6852)

2001-04-26 11:24:44# 126. lþ. 113.2 fundur 449. mál: #A samvinnufélög (innlánsdeildir)# frv. 23/2001, Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[11:24]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. og breytingatillögu við frv. um samvinnufélög, með síðari breytingum, þ.e. þeim kafla laganna sem fjallar um innlánsdeildir samvinnufélaganna.

Nefndin sendi frv. til umsagnar allmargra aðila og fékk nokkra þeirra á sinn fund.

Meiri hluti nefndarinnar leggur eftirfarandi til:

Við 1. efnismgr. 1. gr. bætist svohljóðandi málsliður: Hlutafélag, sem breytt hefur verið úr samvinnufélagi á grundvelli 61. gr., 61. gr. a og 61. gr. b, skal hafa sömu heimild og samvinnufélagið til að reka áfram innlánsdeild og skal í þessum rekstri hafa sömu réttarstöðu í íslenskri löggjöf og samvinnufélög eftir því sem við á.

Þetta er sett fram í því skyni að tekin séu af öll tvímæli um að samvinnufélög sem verða að hlutafélögum geti haldið áfram að starfrækja innlánsdeildir eins og þau hafa gert hingað til.

Ekki er ástæða til þess, virðulegi forseti, að þær breytingar sem verið er að gera á samvinnulögunum sem ganga út á að samvinnufélögum sé gefinn kostur á að breytast í hlutafélög hafi áhrif á rétt þessara fyrirtækja til þess að reka innlánsdeildir. Hvort og með hvaða hætti þessi félög hafa þennan rétt á að ákveða sérstaklega. Þó gengur frv. sem hér er til umræðu út á það að bæta eftirlit og styrkja stöðu þessara innlánsdeilda með auknum kröfum til samvinnufélaganna eða hlutafélaga sem standa að þessum rekstri. Markmiðið frv. er að hagsmunir þeirra einstaklinga og félaga sem eiga eignir inni hjá þessum innlánsdeildum sé betur tryggðir.