Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 12:31:30 (6863)

2001-04-26 12:31:30# 126. lþ. 113.5 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv., Frsm. meiri hluta GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[12:31]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Guðjón Guðmundsson) (andsvar):

Herra forseti. Ný orkulög koma Vestfirðingum ekkert á óvart. Þau eru búin að vera í undirbúningi síðan 1999. Það var byrjað að kynna drög að þessum orkulögum hér, ef ég man rétt, haustið 1999 og aftur vorið 2000. Sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum eru búnir að vera meðvitaðir um það í eitt og hálft til tvö ár að til stendur að breyta orkulögum. Samt sem áður ákveða þeir að fara fram á það við Alþingi og ríkisstjórn að þetta sé gert með þessum hætti.

Ég held, eins og ég sagði áðan, að við eigum ekkert að reyna að hafa vit fyrir þeim. Þeir gera þetta alveg meðvitaðir og það eru fulltrúar allra sveitarfélaganna sem standa að þessu. Það finnst mér mjög mikilvægt. Það er enginn ágreiningur um málið þar. Hins vegar eru deildar meiningar, eins og ég sagði, um hvort menn ætli síðan að selja í framhaldinu eða ekki. En þetta er eindreginn vilji heimamanna og þessi nýju orkulög breyta engu þar um vegna þess að það lá fyrir í stórum dráttum þegar Vestfirðingar voru að fara fram á þetta út á hvað nýju orkulögin muni ganga. Þau voru kynnt hér fyrir líklega einu og hálfu ári í svona stærstu drögum og þau eru í aðalatriðum í dag eins og þau voru kynnt þá þannig að menn gengu alveg meðvitaðir til þessara samninga við ríkisvaldið og þessi ósk er fram sett með fullri vitund um að orkulög eru breytast með þeim hætti sem nú stendur fyrir dyrum.