Stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 12:33:09 (6864)

2001-04-26 12:33:09# 126. lþ. 113.5 fundur 480. mál: #A stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða# frv., Frsm. minni hluta ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[12:33]

Frsm. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri mér alveg grein fyrir því, eins og kom fram í máli mínu, að formlega er þetta fram komið að ósk heimamanna. En við vitum öll hvernig málatilbúnaður hefur verið í þessu sambandi. Fram hafa komið efasemdir t.d. um verðlagninguna, hvort um yfirverð sé að ræða o.s.frv. Menn eru ekkert alveg einhuga um þetta.

Ef um yfirverð er að ræða, kannski um 800 milljónir eða einn milljarður, þá er náttúrlega verið að leysa fjárhagsvanda sveitarfélaganna á Vestfjörðum óbeint með hlutafélagavæðingu og síðan sölu, yfirtöku ríkisins á hlutum sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða og það er að mínu mati ósköp einfaldlega röng nálgun að málinu. Fyrirtækið á að fara á markað miðað við hvers virði það er eftir lögmálum markaðarins. En þegar menn kokka upp svona dæmi milli ríkisstjórnar, ráðuneyta og sveitarfélaga á Vestfjörðum, þá er ekki gengið hreint til verks. Og það er einmitt það sem ég var að tala um, að ég tel að leysa hefði átt vanda sveitarfélaganna á Vestfjörðum beint og þá sérstaklega félagslega íbúðakerfið. Og ég er nokkuð viss um að ef tekið hefði verið beint á þeim málum þá væru menn ekkert í þeim bollaleggingum eða hugleiðingum einu sinni fyrir vestan að breyta Orkubúi Vestfjarða í hlutafélag.

Við gerum okkur öll grein fyrir því að þessi gjörningur er númer eitt, tvö og þrjú til þess að leysa fjárhagsvanda sveitarfélaganna. Að öllum líkindum hefðu aldrei komið til bollaleggingar um breytingu á eignarhaldi ef staðan hefði verið önnur hvað varðar fjárhagsstöðu sveitarfélaganna.