Staða erlends fiskverkafólks

Fimmtudaginn 26. apríl 2001, kl. 13:35:54 (6867)

2001-04-26 13:35:54# 126. lþ. 113.95 fundur 488#B staða erlends fiskverkafólks# (umræður utan dagskrár), félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 126. lþ.

[13:35]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. fyrir að vekja máls á þessu og gefa mér þannig tækifæri til að greina Alþingi frá stöðu málsins.

Þegar sýnt var að sjómannaverkfall væri að skella á þá bað ég Vinnumálastofnun að hvetja fiskvinnslufyrirtækin til þess að rjúfa ekki ráðningarsambandið og halda fólkinu á launaskrá. Fiskvinnslufyrirtækin fá þá atvinnuleysisbæturnar sem eru í kringum 69 þús. kr., ef ég man rétt, þurfa að bæta við 20 þús. kr. á mánuði eða þar um bil til þess að ná kauptryggingunni. Ég lét það jafnframt fylgja með að ef þeir 60 dagar liðu sem fyrirtæki hafa til þess að geta notað þennan rétt til atvinnuleysisbóta vegna hráefnisskorts eða vegna verkfalls þá mundi ég reyna að beita mér fyrir því síðari hluta ársins að lengja þennan tíma.

Sem betur fer urðu langflest fiskvinnslufyrirtæki í landinu við þessum tilmælum og það er að mínu mati mjög þakkarvert. En því miður hafa nokkur fyrirtæki sagt upp og útlendingar utan Evrópska efnahagssvæðisins eru nokkrir í reiðileysi og umhugsunarefni hvort ástæða sé til þess að vera að veita þeim fyrirtækjum sem koma svona fram við starfsmenn, leyfi til að ráða til sín útlendinga.

Ég lét athuga í morgun hvar væru starfsmenn sem nytu ekki bóta. Á Vesturlandi var það einungis eitt fyrirtæki, Guðmundur Runólfsson í Grundarfirði. Þar eru 23 starfsmenn án bóta. Á Vestfjörðum er enginn tekinn af launaskrá. Á Norðurl. v. hafa engir verið teknir af launaskrá, á Norðurl. e. hefur BGB Snæfell á Dalvík sent í burtu fjóra útlenda starfsmenn, Hraðfrystihús Eskifjarðar 18, Snæfell á Stöðvarfirði átta, Kaupfélag Fáskrúðsfjarðar fimm. Þetta gerir samtals 58 starfsmenn sem njóta ekki bóta. Það skal tekið fram að þeir eiga náttúrlega rétt á félagsþjónustu sveitarfélaga og hafa sótt um bæði á Dalvík og á Eskifirði að fá að njóta hennar. Viðkomandi sveitarfélagi er skylt að veita þeim styrk til framfærslu samkvæmt reglum sem þar gilda. Í Reykjavík er hann, ef ég veit rétt, eitthvað í kringum 66 þús. kr. á mánuði sem er þó aðeins lægra en atvinnuleysisbæturnar og síðan á sveitarfélagið endurkröfurétt á félmrn. fyrir þá fjármuni sem lagðir eru út vegna útlendinga. Ég vil ekki nota það orðalag að þeir þurfi að segja sig til sveitar. Þeir eru að sækja rétt sinn, hv. þm. Þessir útlendingar verða ekki neinir hreppsómagahnokkar þó að þeir þurfi á þessari fyrirgreiðslu að halda tímabundið og vegna ástæðna sem þeir ráða ekki við.

Það er náttúrlega sýnt að svona má ekki ganga og ég ritaði stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs bréf í gær sem ég ætla að lesa, með leyfi hæstv. forseta:

,,Með vísan til 3. mgr. 1. gr. laga nr. 12/1997 er hér með óskað umsagnar stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs á því að sá hópur erlendra starfsmanna er vinnur hér á landi á svokölluðum tímabundnum atvinnuleyfum fái notið rétt til bóta úr Atvinnuleysistryggingasjóði enda séu greidd af þeim tryggingagjöld. En skilyrði þessa er að hinir erlendu starfsmenn hafi misst atvinnuna vegna verkfallsaðgerða annarra starfsstétta, sbr. 5. gr. ofangreindra laga.

Rökin fyrir þessu erindi til stjórnarinnar eru þau að erlendir ríkisborgarar, sem hafa ekki sjálfir fengið óbundið atvinnuleyfi, njóta ekki atvinnuleysisbóta, sbr. 2. gr. ofangreindra laga. Í 3. mgr. 1. gr. er ráðherra og stjórn sjóðsins veitt heimild til að ákveða að aðrir hópar geti notið bóta úr sjóðnum gegn greiðslu iðgjalda en unnt er að líta á þá sem ekki hafa sjálfir atvinnuleyfi og njóta ekki fullkomlega stöðu launamanna almennt að þessu leyti. Þrátt fyrir þetta eru greidd gjöld vegna vinnu þeirra, sem standa m.a. undir fjármögnun Atvinnuleysistryggingasjóðs. Með þeirri tillögu sem hér er lögð til er ekki verið að hrófla við inntaki 2. gr. laganna heldur verið að horfa upp á stöðu sem getur komið upp vegna verkfallsaðgerða sem hafa áhrif á aðra hópa.``

Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs, herra forseti, hefur fjallað um málið í morgun. Undirtektir hennar eru jákvæðar og nú í þessum töluðu orðum er verið að fínpússa orðalag í reglugerð og ég vonast eftir að geta skrifað undir hana síðdegis.